„Viðlagskaflinn breytir laginu þannig að það nær til fólks eins og mín sem hlustar ekki á öskurrokk,“ segir Reynir Þór Eggertsson, einn helsti Eurovision-sérfræðingur landsins, sem er bjartsýnn á að Hatari nái langt í Tel Aviv í vor.
Reynir Þór segir í samtali við Morgunútvarpið að hann hafi verið mjög ánægður með forkeppnina í heild sinni. „Mikið af góðum lögum, og úrslitakvöldið á laugardaginn eitt flottasta sjónvarp sem ég hef séð hjá RÚV. Þetta er ein flottasta forkeppnin, getum alveg borið hana saman við Melodie-festival í Svíðþjóð.“ Reynir segir að þegar kom að söngnum hafi tvö atriði staðið upp úr. „Friðrik Ómar og Hera Björk voru í sérflokki hvað varðar flutninginn. Negldu bæði sönginn, það er enginn sem getur keppt við þau þar. En það er vandinn við ballöður, það er erfiðara að markaðssetja þær. En í venjulegu ári hefðu þau bæði átt meiri séns en núna.“
Reynir segir að eitt það skemmtilegasta við keppnina sé hversu óútreiknanleg hún er. „Það getur allt gerst, hlutir geta snúist í höndunum á fólki. Þegar Finnar sendu Lordi 2006 voru mjög háværar raddir um að það gengi ekki að senda svoleiðis lag, svo bara small allt.“ Lagið sé ávallt það sem mestu máli skiptir. „Ef Þú ert með gott lag sem höfðar til fólksins sem er kannski ekki inn á þeirri bylgjulengd, þá getur allt gerst,“ segir Reynir en veðbankar spá nú Íslandi fjórða sæti í keppninni.
Lag Hatara þykir grípandi og atriðið ögrandi og það gæti brugðið til beggja vona. Reynir segir að stundum séu atriði sem tikka í öll boxin en komist ekki upp úr undankvöldinu, en líka dæmi um öskurrokk frá Ungverjalandi sem rjúki upp úr undankeppninni en nái engu flugi í úrslitunum. „Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari, og hef það fyrir mottó að verða frekar fyrir vonbrigðum þegar illa gengur, en að verða fyrir vongbrigðum með að hafa rangt fyrir mér þegar vel gengur. Þannig að ég held við eigum mjög mikinn séns, ég held við séum örugg að komast í úrslit, og held að við verðum inni á topp tíu. Nema einhver fréttaflutningur fari að eyðileggja fyrir okkur.“