„Ég nota voðalega mikið það sem ég er að hugsa í list minni, eins og til dæmis ég lenti í því að verða ástfanginn og þá varð bleikt ský yfir öllum verkum mínum. Listin helst alltaf í hendur við hvernig mér líður“ segir Kristín Dóra Ólafsdóttir sem er nýútskrifuð af myndlistardeild Listaháskóla Íslands.
Kristín Dóra vinnur mikið með texta í verkum sínum en hún skrifar mikið af hugleiðingum sínum niður í skissubækur. Hún segist hafa farið í meðvitað „sjálfsástar“átak fyrir nokkrum árum. „Ég reyndi bara að gera meira af hlutum sem veita mér hamingju og gera hluti á mínum forsendum.“ Þá hafi hún einnig byrjað að skrifa niður hvernig henni leið. „Þá sé ég svart á hvítu hvernig mér líður og hvað ég get gert betur ef ég vil breyta því.“
Kristín vinnur töluvert með einlægni og kaldhæðni í textaverkum sínum en hún hefur alltaf lesið mikið og skrifað, og renndi nokkuð blint í sjóinn þegar hún skráði sig í myndlist. „Þá fékk ég frá kennurunum mínum að ég mætti alveg nota texta sem ég hafði verið að skrifa í myndlistina mína. Að ég þurfti ekki endilega að gefa út bækur. Mér finnst líka íslenskan mikilvæg og falleg, það er gott að vinna með hana,“ segir Kristín.
Kristín hefur unnið nokkuð með unglingum og hefur spáð mikið í hvenær hún hætti að vera unglingur, eða jafnvel hvort hún hafi nokkurn tímann hætt því. „Margir tala um að halda í barnið í sjálfum sér. Ég er meira að halda í unglinginn í sjálfri mér.“ Kristín segir að það að vera unglingur feli meðal annars í sér að vera móttækilegur fyrir breytingum. „Að vita ekki alveg hvað maður vill, og það er kannski flott því þá heldur maður áfram að leita.“
Kristín Dóra Ólafsdóttir var gestur Lestarinnar og ræddi málefni sálarinnar, áhrifavalda innan lista, tilfinningar og margt fleira. Hér að neðan má sjá fleiri dæmi um verk Kristínar en allar myndir í færslunni eru hennar.
Ljósmynd af Kristínu er eftir Hrefnu Björgu Gylfadóttur