Hitamet var slegið í Reykjavík í dag. Aldrei hefur verið heitara á sumardeginum fyrsta síðan mælingar hófust. Hitinn náði mest í 14,7 stig í Reykjavík í dag. Fyrra met á sumardeginum fyrsta var 13,5 stig. Víða var þó heitara en í Reykjavík. Hitinn fór í átján stig í Skaftafelli og á nokkrum stöðum á Norðurlandi. Hiti náði sextán stigum á Vesturlandi. Kalt hefur hins vegar verið með austurströndinni, víða fjögur stig og allt niður í tvær gráður.
Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að rykmistur í lofti hafi dregið úr sól. „Það hefði jafnvel orðið enn hlýrra ef það væri ekki fyrir þetta mikla mistur.“
Hitastig hefur lækkað frá því sem mest var í dag og á eftir að kólna enn. Úrkomusvæði færist inn yfir landið í kvöld.
Fíngert ryk hefur borist alla leið frá Afríku til Íslands og veldur það mistri. Á höfuðborgarsvæðinu bætist við grófara ryk, líklega innlent moldryk. Það veldur enn meira mistri. Gefnar hafa verið út loftgæðaviðvaranir í FJölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal og í Njörvasundi í Reykjavík. Það þýðir að loftgæði þar eru slæm. Víðar á höfuðborgarsvæðinu er gul mæling sem þýðir að loftgæði eru miðlungsgóð.
Sumarkomu var fagnað með pylsuveislu í Bústaðahverfi í dag. Þar hefur íþróttafélagið Víkingur, skátarnir og Bústaðakirkja staðið fyrir sumarhátíð í fimmtán ár. Benedikt Sveinsson, grillmeistari úr Víkingi, sagðist grilla um sjö hundruð pylsur í dag.
Uppfærð 16:07 með upplýsingum um loftgæði.