Heimurinn stoppar ekki við bókaútgáfu

02.08.2017 - 15:47
Björn Halldórsson og Jóhanna María Einarsdóttir gáfu bæði út sína fyrstu bók nú í sumar. Björn gaf út smásögusafnið Smáglæpi og frá Jóhönnu Maríu kom bókin Pínulítil kenopsía - Varúð, hér leynast krókódílar. Þau segja bókabransann vera á góðum stað og litlar útgáfur séu tilbúnar að gefa ungum höfundum tækifæri.

Björn og Jóhanna María eru bæði á fertugsaldri en gangast þó við því að vera ungir rithöfundar. „Ég held það séu ekki mjög margir undir þrítugu að skrifa sem gangast við orðinu rithöfundur. Mjög margir segjast vera að leika sér eða djóka til svona þrítugs. Um þrítugt ferðu kannski að huga að bókaútgáfu eða taka þetta alvarlega nema þú hafir þeim mun meira sjálfstraust sem ég hafði augljóslega ekki,“ segir Björn hreinskilnislega. „Maður fer líka að fatta að maður fari að deyja bráðum og þarf að fara að hugsa um að koma einhverju út ... það er alltaf gaman að hljóma sem morbid rithöfundur,“ bætir Jóhanna við. 

En hvernig er að gefa út sína fyrstu bók? 
„Þetta skiptir ekki eins miklu máli og maður heldur alltaf. Þegar maður gengur með bók undir belti, sérstaklega sína fyrstu bók, heldur maður að heimurinn stoppi þegar hún kemur loksins út ... en hann gerir það ekki,“ útskýrir Björn. Jóhanna María segir að hennar bók, sem byggir á póst-módernískum skrifum, hafi einfaldlega þurft að koma út sem fyrst meðan efnið eigi fullt erindi og sé ferskt. „Ég er búin að bíða alveg frá því síðasta hausti með útgáfuna og líður því mjög vel með hana! Nú er ég tilbúin að fara að skrifa eitthvað meira.“

Mynd með færslu
 Mynd: forlagid.is  -  Forlagið

 

Þeim finnst bókabransinn vera á góðum stað, en nú eru starfandi margar litlar útgáfur sem eru tilbúnar að gefa nýjum rithöfundum tækifæri. Björn bætir því við að sumarútgáfa á Íslandi sé að sækja í sig veðrið, og það sé gömul mýta að bækur geti bara komið út um jól.

Þau ræddu um bækurnar, rithöfundalífið og sitthvað fleira í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

 

Mynd með færslu
Björg Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi