Högna Sigurðardóttir, arkitekt, fæddist í Vestmannaeyjum árið 1929, en bjó og starfaði lengst af í París. Hún var brautryðjandi í sinni stétt með framsækin og róttæk viðhorf. Eitt kunnasta verk Högnu hér á landi er einbýlishús við Bakkaflöt í Garðabæ frá árinu 1968, en árið 2000 var það valið eitt af 100 merkustu byggingum 20. aldar í norður- og miðhluta Evrópu, í tengslum við útgáfu alþjóðlegs yfirlitsrits um byggingarlist 20. aldar.
Högna lést í vikunni, 88 ára að aldri.
Ljóst er að arfleifð Högnu er mikil. Guja Dögg Hauksdóttir, arkitekt, þekkti Högnu og verk hennar vel. Hún segir að hún hafi verið mikill Íslendingur og heimþráin hafi alltaf blundað í henni.
„Það eru tveir endar í henni,“ segir Guja Dögg. „Annar endinn lýtur að þessu umhverfi sem hún sprettur úr, sem er Ísland, eilíft rok og maðurinn á móti náttúrunni og eilíf barátta að lifa af. Byggingarlistararfurinn er torf og grjót, þetta efniskennda, villta og þunga.“
Guja Dögg segir hinn endann vera innblásinn af Frakklandsdvölinni, þar sem Högna bjó megnið af sinni starfsævi. „Hún varð auðvitað fyrir miklum áhrifum af miðevrópskri menningu, þar sem allt er í föstum skorðum og maðurinn er svo gjörsamlega yfir öllu náttúrulegu. Húsin eru skemmtileg blanda af þessu tvennu; þessu þunga og villta [...] og þessum aga. Hún stjórnar með harðri hendi öllum samsetningum, öllum frágangi, yfirborði - þannig að þessir tveir heimar mætast fallega í húsunum hennar, finnst mér.“
Högna hlaut ýmsar viðurkenningar á ferlinum. Þeirra á meðal má nefna að árið 1992 tók hún sæti í akademíu franskra arkitekta. 2007 hlaut hún heiðursorðu Sjónlistar fyrir einstakt framlag til íslenskrar nútímabyggingarlistar. Ári síðar var hún kjörin heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands.