Fyrir einni öld flutti Sigurður Nordal, þá 32 ára og nýkominn heim frá námi, gríðarlega vel sótta heimspekifyrirlestra í Bárubúð í Reykjavík undir heitinu Einlyndi og marglyndi. Sigurður hafði heyjað sér efni í þá á árum fyrri heimstyrjaldarinnar bæði í Þýskalandi og á Bretlandi. Fyrirlestrarnir vöktu athygli og þóttu mikil tíðindi í íslensku hugmyndalandslagi þess tíma.
„Það voru 400 til 500 manns sem mættu á fyrirlestrana. Ætli Reykvíkingar hafi ekki verið 16 þúsund. Þannig að þetta gríðarhátt hlutfall. Hann hefur eiginlega trekkt meira að en Ed Sheeran,“ segir Róbert Haraldsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, í viðtali í Víðsjá á Rás 1. Hann er einn þeirra sem flytur erindi á málþinginu Öld einlyndis og marglyndis í Hannesarholti á laugardag.
Sigurður leit á fyrirlestra sína sem framlag til heimspekilegrar sálfræði og þess sem hann kallaði lífernislist. „Lífernislistin hefur það að hugsjón að bæta manninn með því að kenna honum að þekkja sjálfan sig. Sigurður telur að viss tegund af sjálfsþekkingu hafi bara verið á færi afburðamanna hér áður fyrr en sé nú, með nýrri og bættri sálarfræði og minnkandi brauðstriti – sem hann sér fram á og hefur ræst – á færi mikið fleiri. Fleiri geti hugsað hvers konar hugsjón þeir vilja hafa um sjálfa sig, hvernig einstaklingar þeir vilji vera,“ útskýrir Róbert.
Hugtökin sem hann notar til að ræða lífernislistina eru meðal annars einlyndi og marglyndi, en það eru ný hugtök frá Sigurði sjálfum sem virðast ekki eiga sér beina hliðstæðu í neinum erlendum málum.
„Einlyndið tengist einbeitni, dýptinni, samkvæmni og framkvæmd. Marglyndi tengist aftur á móti fjölbreytni, margbreytileika, fegurðarþránni, frumleikanum, því sem hann notar oft eitt orð yfir: viðkvæmni,“ segir Róbert.
Hann fjallar um þessi grundvallarhugtök sem stefnur í sálarlífi hvers manns, sem hugtök til að lýsa skapgerð manna og síðast en ekki síst sem ákveðnar lífsstefnur.
Viðfangsefni Sigurðar, og hvers manns, felst svo í því að samræma þessar og aðrar andstæður í sálarlífinu. „Hann segir á einum stað að lífskúnstin sé fólgin í því að samrýma ósamrýmanlegar andstæður. Mér finnst það flott orðalag hjá honum,” segir Róbert.