Heimir Hallgrímsson, annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, er bjartsýnn fyrir leikinn gegn Lettum á föstudaginn í undankeppni Evrópumótsins 2016 og segir íslenska liðið vel undirbúið fyrir átökin.

„Við þurfum fyrst og fremst að vera þolinmóðir og gera okkur grein fyrir því að það verður erfitt að brjóta þá niður. Þeir fá ekki á sig mikið af mörkum og leggja upp mjög sterkan varnarleik þannig að við verðum fyrst og fremst að vera þolinmóðir og gera okkur grein fyrir því að það getur tekið tíma að skora hjá þeim og það er dýrt að fá á sig mark á móti þeim, það kemur þeim í hálfgerða kjörstöðu. Svo við erum mjög meðvitaðir um hvernig við ætlum að leggja leikinn upp og fara svolítið varkárt kannski inn í hann.“

Íslenska liðið lék á alls oddi gegn Tyrkjum í fyrsta leik sínum í riðlakeppninni á Laugardalsvelli í síðasta mánuði og hafði þar 3-0 sigur. Heimir segir Letta öðru vísi lið en Tyrki og því þurfi að breyta um taktík til að ná fram sigri í Riga:

„Við verðum að gera okkur grein fyrir andstæðingnum og hann er svolítið öðru vísi. Ég held að það henti honum ef að allir eru villtir út um allan völl og þeir spila ákkurat uppá það að menn séu komnir út úr stöðum þegar þeir vinna boltann þannig að við viljum allavega byrja leikinn á að fara mjög varkárt inn í hann.“

„Við gerum okkur grein fyrir því að Ísland á kannski ekkert að vinna allar þjóðir en úrslitin á móti Tyrkjum gefa vissulega svolítið mikið sjálfstraust og við verðum að tempra væntingar og sjálfstraust þegar við mætum liðum eins og Lettum.“

--

Leikur Lettlands og Íslands hefst kl.18.45 og verður í beinni útsendingu á RÚV.