Hraðfara tæknibreytingar og alþjóðavæðing hafa gjörbreytt stöðu íslenskrar tungu. Bílar, tölvur og heimilistæki þurfa í náinni framtíð að geta skilið íslenskt mál. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor, segir nóg komið af skýrslum. Nú þurfi aukið fjármagn, samtals um 1 milljarð næsta áratuginn.

Eiríkur Rögnvaldsson, starfar sem prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands og er sérfróður er um máltækni. Hann ræddi á Morgunvaktinni á Rás 1 viðfangsefni máltækninnar, hraðfara þróun íslensks máls og vaxandi kröfur tæknisamfélagsins um aðlögun tungunnar. "Síðustu árum hefur orðið nánast bylting í því hvernig hægt er að láta tölvur læra ýmislegt, t.d. um mannlega hegðun. Þær læra af gögnum. Sjá verður þeim fyrir gögnum um hvernig tungumálið er, textum og upplýsingum um hvernig mál er talað. Tölvurnar skoða þessi gögn, finna í þeim mynstur og nota þau síðan til að herma eftir okkur", segir Eiríkur, 

Fjölmargar skýrslur hafa verið ritaðar um mikilvægi þess að þróa máltæknina en verkin hafa ekki verið látin tala, nema að litlu leyti. Á þessu ári eru 15 milljónir króna á fjárlögum ætlaðar til verkefna á sviði máltækni og 30 milljónir samkvæmt frumvarpi að fjárlögum næsta árs. "Þetta hrekkur skammt", segir Eiríkur Rögnvaldsson.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins gerði þetta að umtalsefni á landsfundi flokksins. Þar sagði hann: "Við þurfum þess vegna að vinna mikla undirbúningsvinnu og fjárfesta í þekkingu og tækni. Ef við gerum það ekki óttast ég að börnin okkar muni nota íslenskuna minna og minna, og við þurfum því – og ég legg það til – að við ráðumst af krafti í þá vinnu sem vinna þarf til að gera íslenskuna tæka í nútímasamskiptum með allri þeirri tækniþróun sem er að verða. Við þurfum að horfa til tölvu- og fjarskiptatækninnar. Þetta mun kosta okkur nokkra fjármuni, en það eru smámunir einir miðað við þá hagsmuni sem undir eru, sjálfa þjóðartunguna.“ Eiríkur Rögnvaldsson fagnar þessum orðum ráðherrans. Hann segir að áætlað hafi verið að það þurfi að lágmarki um einn milljarð króna á næstu 10 árum, eða um 100 milljónir á ári, til að þróa nauðsynlega máltækni - samvinnu tungumáls og stafrænnar tækni. Ef ekki er brugðist við og íslenskan verði ekki nothæf í tæknisamfélaginu bíði hennar hnignun.