Heimili ónýt eftir eldsvoða í Christchurch

16.02.2017 - 02:08
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Minnst ellefu heimili eru ónýt eftir mikinn eldsvoða sem geisar í ný-sjálensku borginni Christchurch. Hundruð hafa neyðst til að flýja heimili sín að sögn yfirvalda. AFP fréttastofan greinir frá því að þjóðvarðliðið hafi lýst yfir neyðarástandi í borginni í gær vegna eldsvoðans sem varað hefur í nokkra daga.

Borgaryfirvöld segja yfir 1.800 hektara lands hafa orðið eldi að bráð í Port Hills hverfinu. Þar er landsvæði hrjúft og erfitt aðgengi að því. Um eitt þúsund manns hefur verið flutt af heimilum sínum. Búist er við nokkrum vindi á svæðinu næstu daga sem gæti dreift úr eldinum og fólk því beðið um að vera á varðbergi og koma sér að heiman telji það sig vera í hættu. Varað er við því að eldurinn geti breytt hratt um stefnu og farið fljótt yfir. Þykkur reykjarmökkur liggur yfir borginni. Fólk með öndunarfærasjúkdóma er beðið um að halda kyrru fyrir heima. 

Eldsvoðar á borð við þennan eru sjaldgæfir í Nýja-Sjálandi. Tíð úrkoma kemur vanalega í veg fyrir að þeir nái að breiða úr sér. Einn er látinn vegna eldsvoðans. Þyrluflugmaður lést þegar þyrla hans hrapaði á þriðjudag. Hann var að dreifa vatni yfir eldinn.

14 þyrlur og þrjár flugvélar þjóðvarðliðsins eru notaðar til þess að aðstoða við slökkvistörf. Um 200 slökkviliðsmenn á 45 dælubílum eru við störf auk lögreglu og hermanna sem aðstoða við neyðaraðstoð. Búist er við því að það hægist á útbreiðslu eldsvoðans á föstudag þegar veðuraðstæður eiga að verða skaplegri.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV