Heimildarmynd um konur á einhverfurófi verður sýnd í Bíó Paradís 9.-24. apríl. Myndin Að sjá hið ósýnilega fjallar um líf þeirra og reynslu, sem hefur að mörgu leyti verið öðrum dulin, vegna þess að konur virðast síður fá greiningu en karlar.
Það er staðreynd að stúlkur og konur eru oft greindar seint og það hefur neikvæð áhrif á heilsu þeirra, líðan og lífsgæði. Þess vegna settu Einhverfusamtökin í gang verkefni á síðasta ári ásamt Bjarneyju Lúðvíksdóttur til að vekja athygli á lífi kvenna á einhverfurófi. Algengt sé að stúlkur og konur feli einhverfueinkenni sín og því fylgi mikið álag og vanlíðan. Oft endi þær með hlaðborð af greiningum og aukaverkunum sem þær eiga erfitt með að sætta sig við - og afleiðingar þess geta orðið mjög alvarlegar. Bjarney sá það fljótt að þetta væri stærra en svo að það yrði leyst með stiklu og hafði því samband við Kristján Kristjánsson um að gera heimildarmynd um þennan raunveruleika kvenna.
Bjarney Lúðvíksdóttir, Kristján Kristjánsson og Guðlaug Svala Kristjánsdóttir mættu í Síðdegisútvarpið til þess að ræða myndina Að sjá hið ósýnilega og konur á einhverfurófi á Íslandi.