Heilsugæslustöðvar bjóða nú fólki að hafa samband við hjúkrunarfræðinga í netspjall í gegnum vefsíðuna Heilsuveru. Á síðunni er einnig hægt að panta tíma hjá læknum, endurnýja lyf og margt fleira. Tuttugu þúsund heimsóknir voru á síðuna í hverri viku á árinu sem var að líða. Rætt var við Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslunni og Inga Steinar Ingason, teymisstjóra á Miðstöð rafrænnar sjúkraskrár hjá Embætti landlæknis í Mannlega þættinum á Rás eitt.

Gríðarlega aukning í notkun heilsuveru.is 

Landlæknir og Heilsugæsla höfðuborgarsvæðisins hafa unnið saman að síðunni Heilsuveru undanfarin ár og hafa landsmenn haft aðgang að henni síðan 2014. Markmiðið með henni er að auka aðgengi fólks að heilsugæslu og heilsuvernd. 

Landlæknir heldur utanum þann hluta vefsins sem nefnist Mínar síður.  Notendum þeirra hefur fjölgað verulega. Árið 2017 nýttu um 35 þúsund sér þá þjónustu en árið 2018 um 70 þúsund manns. Ennþá er ekki búið að taka saman lokatölur fyrir árið 2018. Rafræn skilríki þarf til að fara inn á Mínar síður þar sem m.a. er hægt að endurnýja lyf, panta tíma hjá lækni o.s.frv.

Á vefinn heilsuveru.is hafa 20 þúsund komur verið í hverri viku á árinu sem var að líða. Ragnheiður Ósk segir að markmið síðunnar í heild sé að efla heilbrigði landans. „Með því að vera þarna með áræðanlegar upplýsingar um heilsu og áhrifaþætti á heilsu þannig að við getum styrkt einstaklinga í því að hugsa vel um sína heilsu en líka svolítið að vita hvenær á ég að leita mér hjálpar, hvenær á ég að fara til heilsugæslunnar, hvenær á ég að leita jafnvel strax á bráðamóttökuna, og hvað get ég gert í heilsuvernd ef ég er með ungabörn eða verðandi móðir eða hvað það er sem er að gerast í lífi fólks.“

Nýjasta nýtt er netspjallið

 „Svo er nú einn nýr fídus þarna líka inni sem er netspjallið. Þar erum við að reyna að bjóða upp á ráðgjöf í heilbrigðiskerfinu sem getur verið svolítið flókið hjá okkur hérna á Íslandi. […] Það er ekki að fá meðferðarúrræði í gegnum netspjallið en við erum virkilega að reyna að aðstoða það í kerfinu hvert það geti leitað.“ Og það eru hjúkrunarfræðinga sem sjá um að svara fólki á netspjallinu.  

Allar heilsugæslur og tvær deildir Landspítala tengdar heilsuveru.is

Á Miðstöð rafrænnar sjúkraskrár hjá Embætti landlæknis er unnið er að því að rafvæða heilbrigðiskerfið. Ingi Steinar segir að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sé ekki eina heilsugæslan sem tengd er Heilsuveru því nú sé hægt að hafa samand við allar heilsugæslustöðvar landsins í gegnum vefsíðuna.

„Og við erum þó nokkuð farin að vinna með Landspítalanum. Það er hægt að nýta sér Heilusveru ef maður er í meðferð á ákveðnum deildum á Landspítalanum, krabbameinsdeildinni t.d. og börn sem að eru hjá nýrnalæknum á Barnaspítalanum og sykursýkisdeildin er að fara að bætast við núna fljótlega. Þannig að þá geta menn farið að gera þessa sömu hluti og á heilsugæslunni, endurnýja lyfin, panta sér tíma og síðan er líka, af því Ragnheiður var að tala hérna um netspjallið, það er líka önnur leið til þess að eiga samskipti við heilbrigðiskerfið í gegnum Mínar síður. Þarna inni á Heilsuveru getur þú sent fyrirspurn og þá fer hún í ákveðið ferli á þinni heilslugæslustöð. Hún vistast sjálfkrafa í sjúkraskránna þína og svarið sem þú færð vistast líka í sjúkraskránna. 

Betra að nota fyrirspurnir en senda tölvupóst

Ingi Steinar segir að fólk sé núna hvatt til að senda fyrirspurnir frekar en tölvupósta því þeir eru ekki eins öruggir og eru eingöngu í innhólfi viðkomandi læknis en ekki í sjúkraskrá þess sem sendir fyrirspurnina þar sem allir heilbrigðisstarfsmenn sjá hana. Fólk getur skráð farsímann sinn í Heilsuveru og óskað eftir að fá sms þegar búið er að svara fyrirspurninni.

Hann segir að í netspjallinu fái fólk svar strax,  í rauntíma og fyrirspurnum sé svarað mjög flótlega oftast samdægurs eða daginn eftir. Fólk eigi þó ekki að nota þessar leiðir í bráðatilfellum heldur hringja í Neyðarlínuna 112 eða Læknavaktina í 1770 . 

Stefnt er að því að allar sjúkraskrár landsmanna verði aðgengilegar á heilsuveru.is í lok ársins 2020