Kvikmyndin Touch Me Not, sem sýnd er á RIFF, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, er óhefðbundin mynd um nánd, kynhneigðir og líkamleika. Myndin er virðingarverð tilraun þar sem berskjöldun og kvenleg þrá brýst fram í sviðsljósið.
Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:
Kvikmyndin Touch Me Not eða Snertu mig ekki var frumsýnd hér á landi fyrir nokkrum dögum á RIFF en myndin fer að hátíð lokinni í almennar sýningar í Bíó Paradís. Snertu mig ekki hlaut hinn eftirsótta Gullbjörn á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á árinu en þrátt fyrir sigurgönguna var myndin nokkuð umdeildur sigurvegari og hlaut blendnar viðtökur hjá gagnrýnendum. Íslenski leikarinn Tómas Lemarquis fer með stórt hlutverk í myndinni sem er leikstýrt af hinni rúmensku Adinu Pintilie en þetta er fyrsta myndin hennar í fullri lengd.
Snertu mig ekki fellur í raun ekki inn í hefðbundið narratívt form, frásögnin er ólínuleg og ekki var stuðst við eiginlegt handrit við gerð myndarinnar heldur var myndin meira og minna unnin í spuna á milli leikarahópsins og Pintilie. Leikstýran valdi mjög vandlega í hlutverkin eins og kom fram í máli Tómasar Lemarquis þegar hann sat fyrir svörum eftir sýninguna á RIFF og hún lét leikarana meðal annars halda dagbækur og fara í djúpa rannsóknarvinnu á viðfangsefninu. Tómas lagði einnig áherslu á að þrátt fyrir margar sjálfsævisögulegar vísanir í hans karakter, Tómas, sé framvinda myndarinnar eftir sem áður skáldskapur.
Snertu mig ekki fjallar um rannsóknarleiðangur nokkurra ólíkra einstaklinga þar sem þau skoða nánd, kynvitund, kynhneigðir og líkamleika sinn í samfélaginu. Þrjár aðalpersónur í myndinni fá mest pláss, Laura, Tómas og Christian, en leikstýrunni bregður einnig fyrir, hún er því ekki hinn ósýnilegi alsjáandi sem stýrir atburðarásinni heldur stígur fram á sjónarsviðið eða skjáinn og berskjaldar sig frammi fyrir áhorfendum. Leikstjórinn Adina fer með hlutverk Adinu í myndinni og rýfur fjórða vegginn þegar hún tjáir sig við áhorfandann, meðal annars um samband sitt við móður sína, klassískt þema í öllum sálfræðimeðferðum. Í viðtali sem ég fann á netinu hafnar leikstýran einnig því að myndin geti flokkast sem heimildarmynd, myndin sé þó meðvituð tilraun til þess að blanda saman raunveruleika og skáldskap.
Aðalpersónurnar stríða allar við sín vandamál í tengslum við líkama og nánd, Laura er til að mynda snertifælin. Í leit sinni að nánd og snertingu leitar hún til ólíkra kynlífsþerapista og karlmanna sem stunda vændi - þar á meðal transkonunnar Hönnu sem notar kvenleika sinn til þess að ná til Lauru í von um að afbyggja ótta hennar við karlmenn. Laura er oftar en ekki áhorfandi, við horfum á hana horfa á aðra uppfylla þrár hennar og langanir en það er líka ýjað að því að faðir hennar, sem við sjáum hana heimsækja á dánarbeðinum hafi eitthvað með vandamál hennar að gera. Laura er tákngervingur kvenlegrar reiði sem hefur verið bæld niður og það er ákveðið kaþarsis fólgið í því þegar við fáum að sjá reiðina brjótast út hjá henni.
Christian er með alvarlega fjölfötlun, taugahrörnunarsjúkdóm sem gerir það að verkum að hann er í hjólastól og þarf aðstoð við allar athafnir. Christian og Tómas taka báðir þátt í einhvers konar tilraunakenndri hópmeðferð í nánd og snertingu en í gegnum samtöl þeirra ræða þeir um ýmis tabú tengd líkamanum og fötlun. Hárleysi Tómasar er einnig viðfangsefni samtala hans og Christians. Það er lofsvert að myndin gefi fötluðum leikara og fötlun svona stórt pláss en myndin sýnir það sem margir kjósa að horfa fram hjá. Einnig leikur transkonan Hanna Hoffmann sjálfa sig í myndinni en bæði fatlaðir leikarar og transfólk hafa löngum kvartað yfir því að hlutverk fatlaðra og transfólks falli oftar en ekki í skaut ófatlaðra og cis leikara.
Yfirbragð myndarinnar er bjart og hvít yfirborð skipa veigamikinn sess, bæði í gegnum búninga, lýsingu og sviðsetningu sem gefur áhorfandanum tilfinningu um að það sé einhvers konar hreinsun í gangi, þerapía. Þetta er ef til vill kvikmyndagerð sem þerapía, bæði fyrir leikstýruna, leikarana og áhorfendur. Snertu mig ekki horfist í augu við skömmina sem fylgir líkamanum og kynhneigðum manneskjunnar og leitast við að afbyggja hana.
Myndin kannar einnig heim BDSM út frá rannsóknarefninu, nánd, þrá og skömm. Þannig fylgum við persónunum inn á dimman kynlífsklúbb . Mér fannst þeim senum að einhverju leyti ofaukið og að þær væru nokkuð klisjukenndar, mér fannst þær ekki bæta miklu við við þetta áhugaverða umfjöllunarefni. Annað atriði sem ég set líka út á er skortur á fjölbreytileika í leikarahópnum, þrátt fyrir allt, en hann er alfarið skipaður hvítum Evrópubúum sem að er vankantur í þessu samtali um líkama og fjölbreytileika í nútímanum.
Að mínu mati er Snertu mig ekki þó áhugaverð tilraun í kvenlægri kvikmyndagerð, ákveðin tilraun með sjónarhorn. Í frægri ritgerð sinni frá 1975 setti feminíski kvikmyndafræðingurinn Laura Mulvey fram hugtakið „hið karllæga sjónarhorn“ eða „male gaze“ sem kvikmyndirnar virðast enn þann dag í dag eiga langt í land með að hrista af sér. Þegar hið karllæga sjónarhorn er ríkjandi er konan sett fram sem viðfang karllægrar þrár sem hlutgerir persónu hennar og líkama. Adina Pintilie gerir virðingarverða tilraun í Snertu mig ekki með kvikmyndaformið þar sem berskjöldun, kvenlæg þrá og sjónarhorn brjótast fram í sviðsljósið og niðurstaðan er heillandi og áhugaverð kvikmynd sem á erindi við breiðan áhorfendahóp.