Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segist hafa vitað af vopnaflutningum Íslendinga í þrjú ár. Í einni slíkri flugferð hafi verið fluttar mörg þúsund jarðsprengjur auk annarra vopna. Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, segir að fyrirtæki geti ekki skýlt sér á bak við það að hafa fengið leyfi yfirvalda fyrir vopnaflutningum. 

Rætt var við Smára í Morgunútvarpi Rásar 2.

„Ég tók þátt í mínu fyrra starfi, áður en ég kom á þing, í umfangsmikilli rannsókn á vopnaflutningum til Mið-Austurlanda frá Austur-Evrópu. Á 13 mánaða tímabili fundum við gögn um 6-8 flug frá mismunandi flugfélögum, meðal annars Air Atlanta, sem voru að flytja vopn frá Belgrad, Bratislava og fleiri borgum í Austur-Evrópu til Sádi-Arabíu,“ sagði Smári. „Í einu farmbréfi sem ég hef undir höndum sem tengist flugi með íslensku flugfélagi, voru fleiri þúsund jarðsprengjur, skotfæri – mig minnir 700.000 skot – og ýmislegt fleira,“ segir Smári. 

Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, segir að fyrirtæki geti ekki skýlt sér á bak við það að hafa fengið leyfi yfirvalda fyrir vopnaflutningum. 

„Fyrirtæki ber auðvitað ábyrgð á því hvað það gerir. Það er erfitt að skýla sér á bak við það að hafa fengið leyfi hjá einhverju yfirvaldi ef það er jafnvel augljóst að athæfið sem fyrirtækið stundaði hafi verið ósiðlegt og ólöglegt. Þannig að það er alveg klárt að fyrirtæki, og raunar við öll sem erum í þessu samfélagi, við getum ekki skýlt okkur á bak við það: heyrðu það var einhver sem leyfði mér að gera eitthvað, ef það er síðan augljóst að það sem við vorum að gera brýtur gegn siðferðisvitund og lögum,“ segir Ketill.

Ólýsanleg vonbrigði
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir að vopnaflutningar séu grafalvarlegt mál. „Og eiginlega ólýsanleg vonbrigði að við sem herlaus þjóð og þjóð sem er að tala fyrir friði á alþjóðavettvangi, erum ekki bara að veita leyfi fyrir flutningi á vopnum, heldur vopnum til þessara svæða,“ segir Rósa. Það sé stranglega bannað að flytja vopn ef grunur leikur á að þau endi í Jemen og Sýrlandi. „Ástandið í Jemen er hræðilegt, það er nánast ekki hægt að lýsa því. Hjálparsamtök hafa undanfarið gefið út tóm eyðublöð af því að þau hafa ekki lengur orð til þess að lýsa ástandinu þarna,“ segir Rósa.

Engin viðbrögð við skýrslu um vopnaflutninga

Smári bendir á að einhverjir greiði fyrir vopnin sem notuð séu til stríðsátaka. „Það er algjört áhugaleysi hjá flestum vestrænum ríkjum á því að stoppa þetta með raunverulegum hætti. Það kemur fram í því að það hefur enginn rakið vopnin fyrr en við fórum í það. Það hefur enginn rakið peningana sem fara í það að borga fyrir vopnin. Og sér í lagi hefur enginn náð að vekja máls á hlut Sádi-Arabíu sem er langt frá því að vera einhver góður gæi í þessu spili,“ segir Smári. 

„Þessir vopnaflutningar voru beinlínis skráðir með varnarmálaráðuneyti Sádi-Arabíu sem móttakanda. Við birtum þetta í júlí 2016. Þetta var síðasta verkið mitt áður en ég flutti heim og viðbrögðin voru svo til núll. Það gerðist ekki neitt,“ segir Smári.