Tónlistarkonan Kristín Anna Valtýsdóttir gefur út plötuna I Must Be The Devil á föstudag. Hlljómplatan hefur verið býsna lengi í vinnslu. Elstu verkin eru frá árinu 2005 og segist Kristín Anna hafa reynt að hefta framgöngu plötunnar með öllum mögulegum ráðum.

Kristín Anna Valtýsdóttir er einn stofnmeðlima hljómsveitarinnar múm en frá því hún yfirgaf þá sveit um árið 2006 hefur hún starfað með ýmsum listamönnum og sjálf undir listamannanafninu Kría Brekkan. I Must Be The Devil hefur lengi verið í vinnslu en segja má að vegna þrýstings frá vinum sé platan orðin að veruleika. Útgáfutónleikar eru fyrirhugaðir á fimmtudaginn í Dómkirkjunni. Kristín Anna sagði frá útgáfunni og sömuleiðis hönnun plötuumslagsins sem hefur vægast sagt vakið athygli.

„Já, ég var kannski ekki beint að gera plötu en ég hef verið semja tónlist og þá tónlist sem er á þessari plötu síðan 2005,“ segir Kristín Anna þegar hún var spurð að því hvers vegna verkið tók svo langan tíma. „Þá byrjaði ég að semja þessa píanótónlist og fyrsta lagið samdi ég 2005. Þá var ég enn í múm en hætti svo í bandinu 2006. Ég hélt svo áfram að semja lög á píanó og spila þau við tækifæri í öll þessi ár, þar til að vinir mínir sögðu hingað og ekki lengra og sögðust ætla að hjálpa til við að taka þetta upp og gefa út. Eitthvað í mér hefur reynt að hefta framgöngu þessa verks af öllum mögulegum ráðum,“ segir Kristín Anna og veit ekki endilega hvað hefur hindrað alla framtakssemi í garð útgáfunnar, annað en undirmeðvitundina.

Ragnar Kjartansson listamaður er einn helsti samverkamaður Kristínar á bak við hljómplötuna og lýsir hann henni sem listaverki, uppfullu af djúpum sannleika, þjáningu, kaldhæðni og fegurð. „Ég hef unnnið mikið með Ragnari, komið fram í verkum hans. Bel-Air Glamour Records sem gefa plötuna út, eru í raun Ragnar Kjartansson og Ingibjörg Sigurjónsdóttir kona hans og myndlistarmaður. Þau hafa staðið dyggilega við bakið á mér og hvatt mig áfram til þess að gera þetta. Þau settu þetta á fóninn hjá mér í gær, ég hafði ekki heyrt þetta sjálf og það var alveg mjög sérstakt,“ segir Kristín og vill meina að hún hafi fyrir löngu, til að forðast alla eftirsjá í lífinu, ákveðið að það skipti engu máli að taka upp tónlist eða gefa út. Hún væri búin með þann kafla í lífinu. „Svo er maður stundum staddur í leigubíl með brjáluðum bílstjóra og hugsar að maður myndi deyja sáttari ef maður er búin að taka upp þessa tónlist.“

Framhlið hljómplötunnar er sérlega glæsileg, umslagið gerði Ragnar Helgi Ólafsson og Ari Magg sá um ljósmyndun. Þar má sjá listakonuna í fagurbláum samfestingi umkringda fjölmörgum þekktum íslenskum karlmönnum, kviknöktum. „Ragnar Kjartansson útgefandi minn og Ragnar Helgi Ólafsson hönnuður albúmsins, þeir sátu fyrir með strákunum til þess að vera good sports. Ragnar Helgi á hugmyndina og okkur fannst hún ótrúlega skemmtileg. Þá var bara allt sett í gang, hent í hlutverk, hverjir komast og hverjir eru til. Þetta er mjög fallega skúlptúrískt lifandi efni, líkaminn.

Hvert vill svo listakonan Kristín Anna fara með hlustendur í þessu verki?
„Satt best að segja þá er þetta sjálfhverf sköpun, ég er ekki beint að skapa með hlustandann í huga. Ég syng mjög oft til einhvers, ég hef alltaf ímyndað mér að tónlistin sem ég geri sé tónlist sem er gott að hlusta á þegar maður er einn,“ segir Kristín Anna Valtýsdóttir.