Formaður Hjartaheilla lýsir miklum áhyggjum af fyrirkomulagi við móttöku hjartasjúklinga. Hann telur það skref aftur á bak að þeir þurfi fyrst að fara á bráðamóttökuna í Fossvogi áður en þeir komist í sérhæfða þjónustu á Hringbraut.
Réttur mánuður er liðinn frá því að móttöku á Hjartagáttinni á Hringbraut var hætt. Öllum er nú beint á bráðamóttökuna í Fossvogi.
„Mánuður náttúrulega er stuttur tími, en engu að síður þá höfum við áhyggjur af þessu fyrirkomulagi. Þetta er gert jú að sögn vegna manneklu, hjúkrunarfræðinga vantar. En við höfum áhyggjur því það geta komið upp bráðatilvik sem þarfnast skjótra aðgerða og ef að fólk er staðsett í Fossvoginum og þarf að fara niður á Hringbraut þá kallar það á flutning og í flutningi getur ýmislegt gerst. Og það eru mestu áhyggjur sem við höfum í dag, allur stofninn er á Hringbrautinni varðandi Hjartagáttina og verður það áfram, en náttúrulega bráðamóttakan er í Fossvoginum,“ segir Sveinn Guðmundsson formaður Hjartaheilla.
Hann segir að þangað komi allir, óháð því hvað hrjái þá. Sveinn segist ekki hafa tölur um ástandið, en desember sé alla jafna erfiðasti mánuður hjartasjúklinga vegna mikillar kjötneyslu og fleira. Hann telur núverandi fyrirkomulag skref aftur á bak.
„Já, já það er ekki spurning, en á móti þá er þetta bara staðreynd, kerfið er svona, að reyna að bregðast við stöðu sem komin er upp sem þau geta ekki gert við, en einhvern veginn finnst manni samt að menn verði að gera allt hvað þeir geta til þess að hafa þetta sem best. Við eigum alveg frábært heilbrigðisfólk, en ef það vantar til starfa þá eru menn að reyna að stoppa í götin einhvern veginn. En þetta er ekki gott.“
Sveinn segir hjartasjúklinga vissulega í forgangi á bráðamóttökunni ef það liggur strax fyrir að þeir séu slíkir. Hann segir að í alvarlegum tilfellum geti flutningur frá Fossvogi á Hringbraut haft slæmar afleiðingar.
„Það getur bara skipt sköpum, það er ekki spurning, það getur gert það og vonandi kemur slíkt tilvik ekki upp á næstunni og aldrei, vonandi ekki.“