Kári Stefánsson sér eftir því að Íslensk erfðagreining hafi gefið fé til kaupa á jáeindaskanna. Fremur hefði átt gefa skanna og setja hann upp. Hann segir gjörsamlega óásættanlegt hversu langan tíma það hafi tekið að taka skannann í notkun og gagnrýnir vitleysu í kringum framkvæmdir á vegum hins opinbera.

Árið 2015 gaf Íslensk erfðagreining Landspítala rúmar 720 milljónir, eða 6,5 milljónir bandaríkjadala, til kaupa á jáeindaskanna. Kári segir að það hafi verið mistök að gefa skannann með þessum hætti. 

„Ég held það sé bara eðlilegast að ég axli ábyrgð á þessari vitleysu. Við áttum ekki að gefa þeim fé. Við áttum að gefa þeim jáeindaskanna sem við hefðum sett upp. Ef við hefðum sett upp þennan skanna þá hefði hann verið kominn í gagnið eftir eitt til eitt og hálft ár. Það hefði ekki tekið þrjú ár. Ég er hundrað prósent viss um það. Við skulum orða það þannig. Næst þegar við gefum jáeindaskanna þá setjum við hann upp sjálf. “

Einhvers konar vitleysa í gangi

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, sagði í vikulegum pistli sínum á föstudag að reynslan sýni að þetta sé verkefni sem taki að minnsta kosti þrjú til fjögur ár. „Bent er á, til dæmis, í tengslum við þennan jáeindaskanna að það sé einhver jáeindaskanni uppi í Tromsö í Noregi sem að taki fjögur ár að koma í gagnið. Þar er um að ræða skanna í landi þar sem er fullt af jáeindaskönnum og lá ekkert á að koma honum upp. Hér lá á að koma upp jáeindaskannanum af því það var verið að senda hundruð sjúklinga til útlanda.“

Upphaflega stóð til að byrja að nota skannann í lok árs 2016 en hann var tekinn í notkun fyrr í þessum mánuði. „Áhyggjur mínar beinast í dag ekki að þessum jáeindaskanna. Hann vekur hjá mér töluverða gleði, hann er kominn upp, hann er farinn að leggja af mörkum. Hann er farinn að hjálpa fólki, auka lífsgæði þeirra. Áhyggjur mína lúta að því að það er einhvers konar vitleysa í gangi þegar kemur að stórframkvæmdum á vegum ríkisins og það verður að leysa það vandamál. Það verður að sjá til þess að Landspítalinn verði reistur, nýi spítalinn verði reistur, á eðlilegum tíma og fyrir ásættanlegt fé.“

 

Skerpa þurfi á rekstri hjá ríkinu

Kári segir ljóst að skerpa þurfi á rekstri í kringum verkefni af þessu tagi hjá ríkinu. „Nú á að fara að reisa stóran Landspítala og ef þú horfir á svona stærri verkefnin á Landspítalalóðinni núna eins og sjúkrahótelið, sem hefur tekið meira en þrisvar sinnum þann tíma sem það ætti að taka. Ef þú berð það saman við bygginguna sem við stöndum í núna [hús Íslenskrar erfðagreiningar] að þá var tekin fyrsta skóflustunga í marsmánuði og það var farið að flytja tæki inn í húsið í nóvember, það tók níu mánuði að reisa þetta flókna stóra 15.000 fermetra hús,“ segir hann. 

Kári segist vera gamall sósíalisti og því erfitt fyrir sig að viðurkenna framkvæmdir á vegum ríkisins virðist alltaf taka miklu lengri tíma og kosta mun meira fé en lagt sé upp. „Það er óásættanlegt. Við verðum finna leið til þess að láta menn og stofnanir eigna sér verkefni og ýta þeim áfram.“