Fjölskylda Friðriks Rúnars Garðarsson, rjúpnaskyttunnar sem fannst heil á húfi á mel í nágrenni við Sauðá eftir að hafa verið týnd einn og hálfan sólarhring, beið hans við þyrlupallinn við Borgarspítalann. Það voru því fagnaðarfundir þegar Friðrik Rúnar kom út úr þyrlu Landhelgisgæslunnar um klukkan hálf tvö í dag.

Friðrik varð viðskila við tvo veiðifélaga sína á föstudag og þegar ekkert hafði til hans spurst um kvöldið var óskað eftir aðstoð björgunarsveita. Friðrik er menntaður læknir og þaulvanur útivistamaður og það kom sér vel í þessum aðstæðum.

Kristín Sigurðardóttir, fréttamaður, ræddi stuttlega við Friðrik við komuna á Borgarspítalann. Hann sagði að auðvitað hefði þetta verið erfitt. „Ég get bara ekki lýst því hvers konar tilfinning það var þegar ég sá ljósin á snjósleðunum koma og frétti að það hefðu verið 400 manns að leita að mér. Ég hef verið heimtur úr helju. Ég er búinn að sofa úti í tvær nætur, grafinn í skafl og upplifað 16 tíma af myrkri og var orðinn dálítið blautur. Og þótt ég hafi ekki verið illa búinn þá var ég símalaus - síminn varð eftir,“ segir Friðrik.

Hann segist aldrei hafa brotnað niður. „Auðvitað var ég ekki viss um hvernig þetta myndi fara - ég var alveg villtur og það hefur aldrei komið fyrir mig. Ég vil bara ítreka hvað ég er þakklátur fyrir það að hafa verið bjargað því ég hefði ekki lifað af annan dag eins og ástandið var á mér. Ég hafði hvorki gps né síma. Og ég vil segja við aðrar rjúpnaskyttur að þótt það sé auðvitað frábært að búa í landi þar sem má veiða rjúpur eigum við að vera undir það búnar að geta lent í svona og læra af mínum mistökum - að gleyma ekki símanum í bústaðnum,“ sagði Friðrik sem fékk einnig hlýjar móttökur frá fyrrverandi samstarfsmönnum sínum á Borgarspítalanum.

Friðrik gróf sig í fönn á föstudagskvöld þegar veður tók að versna en hann var vel búinn, með nesti og labrador-hund. Þegar stytti upp á laugardeginum og veður tók  lægja reyndi Friðrik að komast aftur til byggða en þegar veðrið versnaði á nýjan leik gróf hann sig aftur í fönn á nýjum stað og hélt  kyrru fyrir þar til í morgun. Þá hugðist hann aftur reyna að komast til byggða. Það var síðan snjósleðahópur frá björgunarsveitinni á Dalvík sem keyrði fram á Friðrik við mel í nágrenni við Sauðá um tíu leytið í morgun.

Þyrla Landhelgisgæslunnar hífði hann upp og hann lenti á flugvellinum á Egilsstöðum þar sem læknir og sjúkrabíll biðu hans. Björgunarsveitarmenn fylgdu svo labrador-hundinum hans til byggða.