Það er ekki óalgeng sjón á Drangsnesi að sjá fólk labbandi um götur bæjarins á sloppum. Eða jafnvel koma hoppandi út úr bílum á sundfötunum. Þetta gera bæði heimamenn og gestir á leið sinni í heitu pottana sem staðsettir eru niðri við sjóinn.

 

„Þetta er bara sá staður sem við notum til að koma saman og spjalla, ekki síst á kvöldin eftir erfiðan vinnudag eða um helgar þegar við viljum lyfta okkur upp. Þannig að þetta er svolítið eins og samkomuhús eða pöbb á staðnum,“ segir Marta Guðrún Jóhannesdóttir skólastjóri. 

Heita vatnið sem notað er í pottana fannst 1996 þegar verið var að leita eftir köldu vatni og er nú notað til að kynda upp húsin í bænum. 

„Ég held að þetta hafi mikið að segja fyrir samfélagið, af því að við þekkjum ekki pöbbamenningu hér og kaffihús er svolítið flóknara en þetta er eitthvað sem allir eiga saman. Hér er engin hópaskipting og ég hef svolítið tengt það við pottana,“ segir Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur sem flutti á svæðið fyrir tæpum þremur árum.