Ólöf Rósa Gunnarsdóttir, 22 ára gömul kona, hefur á stundum grátbeðið um að leg hennar og eggjastokkar verði fjarlægðir vegna verkja af legslímuflakki. Hún segir erfitt að fá greiningu og að lækna skorti skilning á sjúkdómnum.
Endómetríósa, eða legslímuflakk, er sársaukafullur, krónískur sjúkdómur sem leggst á um 5-10 prósent kvenna. Hann orsakast af því að frumur úr innra lagi legsins finnast á öðrum stöðum í kviðarholinu. Fram kemur á síðu samtaka um endómetríósu að legslímuflakk finnst meðal annars á eggjastokkum, eggjaleiðurum, þvagblöðru, ristli og víðar. Í mjög sjaldgæfum tilfellum hefur það fundist í lungum, nefi, nafla og heila.
Ólöf Rósa greindist með sjúkdóminn fyrir sjö árum. „Í mínu tilfelli fæ ég mjög slæma magakrampa, fæ verk í bakið sem leiðir niður í tær. Stundum missi ég tilfinninguna í fótunum fyrir neðan hné bara út af verkjum. Ég fæ svima, á erfitt með að standa og stunda daglegt líf. Er yfirleitt bara rúmliggjandi. Ég hef misst meðvitund og kastað upp í kjölfar þess.“
Hún segir erfitt að greinast svona ung og mæta viðhorfi lækna. „Ég fann mikinn mun á því hvort ég væri að hitta konur eða karlmenn, karlmennirnir náttúrulega vita ekki hvernig þetta er, þú veist sársaukinn sem fylgir bara blæðingum. En konur finnst mér í heildina vita meira, sýna meiri samúð og finnst mér vera meira tilbúnar til að taka aukaskrefið til að hjálpa manni.“
Vildi þvinga líkamann á breytingaskeið
Sjúkdómurinn er ólæknandi og Ólöf segir að úrræðin séu lítil. Einn læknir hafi meðal annars viljað þvinga líkama Ólafar til að byrja á breytingaskeiðinu. Þá hafa sumar konur neyðst til að láta fjarlægja legið og eggjastokkana til að reyna að lágmarka verki. „Ég hef nokkrum sinnum, sem sagt þegar ég hef verið mjög kvalin, þá hef ég verið hágrátandi að biðja mömmu mína um að biðja lækninn um að fjarlægja þetta, af því ég get ekki meir, er bara alveg búin á því líkamlega og andlega,“ segir hún.
Hún segir að stundum sé erfitt að líta á björtu hliðarnar. „Stundum, ef ég á góða daga þá náttúrlega líður mér betur og hef meiri von um það að þetta muni lagast eða allavega skána eitthvað. En á erfiðum á dögum þá hugsa ég bara, þetta er aldrei að fara að lagast. Það er mjög að vera að ganga í gegnum erfiðan dag og reyna að horfa björtum augum á lífið. “