Hart var tekist á á opnum fundi Miðbæjarfélagsins í Reykjavík í dag en þar kynntu verslunareigendur undirskriftalista þar sem því er mótmælt að Laugavegi, Bankastræti og Skólavörðustíg verði lokað fyrir bílaumferð.

Tvöhundruð þrjátíu og átta kaupmenn hafa skrifað undir skjal Miðbæjarfélagsins. Þeir verslunareigendur sem skrifað hafa undir telja að götulokanir í miðbænum hafi leitt af sér mikinn samdrátt í verslun. Segja þeir stöðuna í miðbænum grafalvarlega og að borgaryfirvöld virði rök verslunareigenda að vettugi.

Bolli Ófeigsson, eigandi Gullsmiðju Ófeigs á Skólavörðustígi, var einn af skipuleggjendum fundarins. Hann segir lokanirnar hafa mikil áhrif á reksturinn. „Það bara hægir á öllum viðskiptum. Við fáum ekki lengur Íslendingana hérna til að koma og versla við okkur og koma til þess að njóta þess að vera í bænum. Þetta eru allt meira og minna útlendingar hérna núna. Við kennum um skertu aðgengi að miðbænum,“ segir Bolli.

„Við vildum sjá hver staðan væri af því að okkur var sagt af borginni að meirihluti sé fyrir lokunum en það hefur aldrei verið talað við okkur. Við fórum því af stað með undirskriftalista til að sjá nákvæma stöðu og núna kemur út úr því að þetta er nánast rússnesk kosning. Verslunareigendur eru á móti lokunum,“ segir hann.

Þá segir hann borgaryfirvöld ekki hlusta á rök verslunareigenda. „Þeir kannski heyra í manni en þeir eru ekki að hlusta. Þeir ráðfæra sig við þá sem eru sammála þeim og eru svolítið að drottna yfir okkur,“ bætir Bolli við.

Mikill hiti í fundargestum

Tekist var á um ólík sjónarmið á fundinum. Sumir verslunareigendur sögðu lokanirnar hafa engin eða góð áhrif. Þá var gagnrýnt að illa væri staðið að undirskriftasöfnuninni og að hún gæfi ekki rétta mynd af skoðun verslunareigenda. Nefndu einhverjir að beitt hefði verið blekkingum við undirskriftasöfnun, nöfn kæmu nokkrum sinnum fyrir á listanum og að sneitt hefði verið hjá verslunareigendum sem væru ekki á sama máli og Miðbæjarfélagið.

Guðrún Jóhannesdóttir, eigandi Kokka á Laugavegi, segir að skiptar skoðanir séu á málinu og að fjölbreyttur hópur verslunarmanna sé í miðborginni. Segir hún eðlilegt að fólk sé hrætt við breytingar. „Eðli málsins samkvæmt hefur fólk áhyggjur þegar hlutirnir eru að breytast. Maður sá það bara þegar Strikinu í Kaupmannahöfn var lokað á sínum tíma. Þá varð allt vitlaust. Þetta hefur gerst í mörgum borgum en það er engin borg sem hefur hætt við göngutúr og farið til baka í að opna fyrir bílaumferð,“ segir Guðrún.

„Málið er bara að rekstrarumhverfið er að breytast gríðarlega hratt. Það er bara allt öðruvísi en það var fyrir 20 árum síðan. Ég tala nú ekki um fyrir 40 eða 50 árum síðan. Þetta er bara í stöðugri þróun. Ég held að maður þurfi bara að vekja á sér athygli á annan hátt en að tala um hvað allt sé ömurlegt. Ég held að það sé ekki lykillinn að því að gera reksturinn hjá sér blómlegan.“

Laugavegurinn göngugata allt árið um kring frá 1. maí

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í haust að gera Laugaveg og Bankastræti að göngugötu allt árið ásamt völdum götum í Kvosinni. Sú vinna er nú langt á veg komin og má gera ráð fyrir því að þegar lokað verði fyrir umferð í vor verði það til frambúðar. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, segir það af og frá að ekki hafi verið haft samráð við verslunareigendur.

„Það skiptir okkur mjög miklu máli. Við vorum með opið hús hér í ráðhúsinu í heila viku þar sem allir hagsmunaaðilar og íbúar gátu komið með tillögur og hugmyndir. Það var allt tekið inn í vinnuna við Laugaveg göngugötu. Svo hafa líka verið haldnir opnir fundir og vinnufundir með hagsmunaaðilum,“ segir Sigurborg. „Ég tel það mjög leiðinlegt að það sé verið að fara með göngugötur í skotgrafir þegar málið snýst um að búa til betra rekstrarumhverfi fyrir verslun og veitingastaði og búa hér til betri borg fyrir fólk.“

Segir hún ljóst að göngugötur auki verslun. „Ég held að það hafi mjög jákvæð áhrif á lífið í borginni. Ég held að það muni efla miðbæinn og styrkja hann. Við vitum það að opna göngugötur í miðbæjum eykur verslun. Við höfum reynslu frá nágrannaborgum okkar. Til dæmis í Kaupmannahöfn hafa margar göngugötur verið opnaðar og þar jókst verslun um 25 til 40 prósent.“

Sigurborg segir að borgin muni taka við undirskriftarlistanum. Hann mun þó hafa lítil áhrif. „Þetta verður allt tekið með inn í vinnuna eins og aðrar athugasemdir en borgarstjórn hefur ákveðið að opna Laugaveg varanlega sem göngugötur. Það var samhljóða og við stöndum við það.“