Menntamálaráðuneytið ætlar ekki að endurnýja þjónustusamning við Menntaskólann Hraðbraut. Þetta er í samræmi við vilja meirihluta menntamálanefndar Alþingis sem skilaði ráðherra skýrslu í desember.

Ákvörðun ráðherra er einkum byggð á skýrslu ríkisendurskoðunar en þar komu fram alvarlegar ásakanir í garð eigenda skólans. Eigendum skólans var greiddur tugmilljóna króna arður, sem þótti byggjast á hæpnum forsendum, og eigendum var lánað fé í andstöðu við ákvæði þjónustusamnings. Ráðuneytið hefur ákveðið að leyfa þeim nemendum sem hófu nám í haust að ljúka námi að ströngum skilyrðum uppfylltum, til að mynda um eftirlit og að ekki megi greiða eigendum arð.

Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri Hraðbrautar, er ekki ánægður með að samningur við skólann verði ekki framlengdur. 

„Mér finnst það dapurlegt, og hefði auðvitað viljað sjá allt aðra stöðu núna. En þetta er hápólitísk aðför að skólanum. Það er bara þannig. Menn vilja núna allt feigt sem er einkarekið, þannig er staða málsins,“ sagði Ólafur í samtali við fréttastofu.

KAtrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, segir ráðuneytið eiga í mjög góðum samskiptum við ýmsar einkareknar skólastofnanir. Katrín segir að ákvörðunin byggist á vilja 7 af 9 fulltrúum menntamálanefdar Alþingis og skýrslu ríkisendurskoðunar. Hún geti því ekki litið á þetta sem pólitíska aðför sem snúist um rekstrarform. Verið sé að fylgja úrkurði og tilmælum frá eftirlitsaðila.

Ólafur segir að vafalítið sé ríkisendurskoðun pólitísk. Það verði dýrt fyrir samfélagið þegar þeir 200 væntanlegir nemendur Hraðbrautar og 25 starfsmenn fari á atvinnuleysisbætur. Hann segist hafa tekið 40 milljónir í arð, en hann hafi tekið sér lág laun. Hann hafi bara tekið út arð eftir því sem skólastarfið og rekstur skólans hafi þolað. Það sé af og frá að hann hafi gert eitthvað rangt.