Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segist hvorki hafa reynt að hafa áhrif á rannsókn lögreglu á lekamálinu né hafi hún farið yfir strikið í samskiptum sínum við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Þetta sagði Hanna Birna í Kastljósviðtali í kvöld.
Hanna Birna segir rangt að í bréfi umboðsmanns Alþingis sé lýst afskiptum ráðherra og annarra af rannsókn lögreglu á lekamálinu. Þarna sé einungis lýst samskiptum hennar og lögreglustjóra sem væri nauðsynlegt að þau ættu vegna rannsóknarinnar. Hún hafi fengið ráðgjöf innan ráðuneytisins um samskipti sín við Stefán, lögfræðingar ráðuneytisins hafi lagt blessun sína yfir verklagið sem var viðhaft.
„Lögreglustjórinn í Reykjavík er að segja bara það sama og við höfum bæði sagt. Sem er það að við ræddum málin. Við urðum að gera það," segir Hanna Birna um það hvernig samskiptum hennar og lögreglustjóra var háttað. Þau hefðu þurft að fara yfir gögn og yfirferð málsins.
Reyndi aldrei að hafa áhrif á rannsóknina
Hanna Birna þvertók fyrir að hafa reynt að hafa áhrif á rannsókn lögreglunnar á lekamálinu. „Ég skilgreini það algjörlega þannig að ég reyndi aldrei að hafa áhrif á rannsóknina. Enda hefur Stefán sagt það að rannsóknin hafi gengið eðlilega fyrir sig. Það hefur ríkissaksóknari líka sagt þegar hún ákveður að ákæra í málinu. Henni hefði verið í lófa lagið ef hún teldi rannsóknina ekki fullnægjandi að vísa henni aftur til lögreglunnar."
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra var í viðtali við Helga Seljan í Kastljósi.
Nauðsynlegt að velta fyrir sér hvað eigi að gera í þessari stöðu
Í bréfi umboðsmanns Alþingis til ráðherra greinir hann frá samtali sínu við lögreglustjóra. Þar er haft eftir Stefáni að ráðherra hefði sagt honum að rannsaka þyrfti rannsókn lögreglu að henni lokinni. „Það er algjörlega fráleitt að halda því fram að ég hafi beitt einhverjum hótunum," sagði Hanna Birna um þessi ummæli. „Þegar ég segi þetta er ég að vísa til þess að það er nauðsynlegt, og ég hef sagt það opinberlega, fyrir stjórnarráðið, fyrir stjórnkerfið í heild sinni að fara yfir þessa rannsókn og velta fyrir sér hvað menn gera þegar þessi staða kemur upp."
Hanna Birna sagðist óska sér að það hefðu verið til reglur um hvernig ætti að bregðast við svona aðstöðu.
Fram kemur í bréfi umboðsmanns að lögregla hafi verið beðin að flýta yfirheyrslu yfir Gísla Frey Valdórssyni, aðstoðarmanni Hönnu Birnu á þeim tíma, svo hann þyrfti ekki að hafa hana hangandi yfir sér yfir helgi. Hanna Birna segir þetta aðeins hafa verið beiðni frá Gísla til að flýta yfirheyrslunni.
Hanna Birna sagði Stefán hafa sagt sér að það sem um rannsókn á ráðuneyti væri að ræða yrði rannsóknin sérstaklega harðdræg og ekki gilti meðalhóf í þeirri rannsókn. Aðspurð hvort það hefðu verið mistök hvernig samskiptunum var háttað svaraði innanríkisráðherra: „Það voru ekki mistök að sinna starfinu mínu. Ég sinnti starfinu mínu eins og ég taldi mig best geta gert. Ég þarf að gæta almannahagsmuna, mín hugsun er einungis sú," sagði Hanna Birna. Þetta hafi hún vandað sig við eins og hún framast gæti.
Væri hægt að kæra ráðherra inn og út úr embætti
Í bréfi sínu vísar umboðsmaður Alþingis til orða Stefáns Eiríkssonar þar sem hann taldi Hönnu Birnu hafa upplifað samskipti þeirra einu sinni þannig að hún hefði farið yfir strikið. Þetta segir Hanna Birna vera rangt. Hún hafi heldur ekki upplifað málið svo að Stefán hefði farið yfir strikið gagnvart henni.
Aðspurð sagðist Hanna Birna ekki telja að hún hefði átt að láta af embætti tímabundið. „Þá getur þú, og þú vilt ekki heldur bera þá ábyrgð sem einstaklingur í þessu landi: þá getur þú í raun og veru kært menn út og inn úr ráðherrastóli."
Hún sagði að eftir á að hyggja hefðu það verið pólitísk mistök að hafa ákveðið að vera ráðherrann sem verði sig ekki sjálfan sig opinberlega heldur stofnanirnar sem undir hann heyrðu.
„Ég hef aldrei sagt Alþingi ósatt"
Innanríkisráðherra hefur verið sakaður um að ljúga að Alþingi með því að neita að kannast við lekaplaggið í umræðum á Alþingi. Hanna Birna sagði að innanríkisráðuneytið gæti ekki gengist við því plaggi sem Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingar, hefði veifað í þingsal. Í því plaggi væri viðbót sem væri ekki frá ráðuneytinu komið. Hanna Birna neitaði því mánuði fyrir umræðu á þingi að plaggið væri komið úr ráðuneytinu. Þetta hefði byggt á rannsókn sem hefði farið fram, niðurstaða hennar var að ekki fundust gögn um að gagnið hefði farið úr ráðuneytinu. „Ég hreinlega veit ekki, hef aldrei vitað,hvernig gagnið fór úr ráðuneytinu. Ég stend frammi fyrir því að Alþingi krefst svara sem ég get ekki veitt."
Hanna Birna segir að þegar málið var rætt á þingi hefði umræðan snúist um viðbót sem ekki væri úr ráðuneytinu komið. Hún hefði ef til vill mátt orða það skýrar í hita leiksins í umræðum á Alþingi að hún væri að vísa til þeirrar viðbótar.
„Ég óskaði aldrei nokkurn tíma eftir þessu gagni, aldrei nokkurn tíma," sagði Hanna Birna um tilurð minnisblaðsins. Hún sagði embættismenn hafa kallað eftir því. „Þessi einstaklingsmál koma ekki einu sinni inn á borð ráðherra." Hún sagðist ekki vita hvernig gagnið hefði komist í dreifingu.
„Ég vissi ekkert nákvæmlega um þær tímasetningar," sagði Hanna Birna aðspurð um það að Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður hennar, hefði verið í samskiptum við fjölmiðla skömmu áður en Fréttablaðið og mbl.is birtu fréttir um málið. Í frétt mbl.is var tekið fram að byggt væri á skjalinu. „Ég spurði, bæði starfsfólk ráðuneytisins og aðstoðarmenn mína, hvort þeir hefðu sent þetta gagn frá sér, margítrekað," sagði Hanna Birna og kvað svarið vera nei.
Hefur gert stöðuna erfiða pólitískt og persónulega
Hanna Birna sagði að staða sín hefði orðið erfiðari, pólitískt og persónulega. Sig hefði langað til að upplýsa málið og klára það en ýmsar ástæður komið í veg fyrir að það væri hægt.
„Mér finnst fjölmiðlamenn gera það líka. Mér finnst menn nálgast þetta með fyrirframgefinni niðurstöðu og mér finnst menn ekki ætla að leyfa málinu að klárast. Það hefur verið hin erfiða pólitíska og persónulega barátta í þessu máli. Vegna þess að ég var ekki kosin, Helgi, til að verja eitthvað kerfi. Ég var ekki kosin til að verja eitthvað sem ég trúi ekki á. Ég var kosin til að verja almenning og þess vegna ætla ég, eftir að þetta liggur eins og þetta liggur, að tala um þetta eins og þetta blasir við mér.