„Það er varla að ég trúi þessu enn þá. En ég sé þetta þannig að ég verð líklega að gera það,“ segir Finnbogi Leifsson, bóndi á bænum Hítardal, skammt frá þeim stað þar sem gríðarstórt berghlaup féll úr Fagraskógarfjalli í nótt. Finnbogi hefur búið í Hítardal í 63 ár og segir að þetta sé eitthvað sem hann hefði aldrei getað ímyndað sér að gæti gerst.
Það er nokkuð ljóst að mikið hefur gengið á í Hítardal einhvers staðar á bilinu 4 til 6 í nótt, þegar stærðarinnar berghlaup féll úr Fagraskógarfjalli í veg fyrir Hítará sem rennur meðfram fjallinu. Berghlaupið hefur myndað stóra stíflu í ánni, og þar er nú komið stærðarinnar lón.
„Þetta eru bara hamfarir, það er ekkert annað að segja um það,“ segir Finnbogi. Tinna Kristín dóttir hans varð skriðunnar fyrst vör. „Ég rumskaði í nótt við að það voru tveir krummar með mikil læti og svo komu drunur í kjölfarið, en ég reyndar fór ekki á fætur. Það eru oft þrumur hérna og ég bara pældi ekkert meira í þessu. Þetta voru bara hljóð og ég hélt áfram að sofa,“ segir Tinna Kristín. Það var svo þegar heimilisfólkið leit út um gluggann um morguninn að það sá hvers kyns var. Það var lán í óláni að berghlaupið varð um nótt og að enginn var á ferli.
„Stórtjón“
„Þarna hefur fallið berghlaup og skýringin er væntanlega sú að rigningin undanfarnar vikur og mánuði hefur fyllt gamlar jarðskjálftasprungur og hugsanlega sprungur meðfram berggöngum,“ segir Finnbogi Rögnvaldsson jarðfræðingur. „Og vökvaþrýstingurinn af þessu vatni, þegar vatnsstaðan er orðin mjög há í sprungunum, þá þrýstir vatnið sér inn í veikleika á milli hraunlaga. Og veldur því að stórt stykki úr Fagraskógarfjalli fellur niður á láglendið,“ segir Finnbogi sem telur þetta einhverja stærstu skriðu hér á landi frá landnámi.
„Það getur orðið stórtjón og verður sjálfsagt varðandi rennsli Hítarár sem hefur stoppað. Það er aðalmálið sem ég hef áhyggjur af,“ segir Finnbogi Leifsson bóndi sem hefur bæði áhyggjur af laxinum í ánni og skemmdum á landinu. Hann telur hins vegar ólíklegt að búfénaður hafi orðið fyrir skriðunni.
Ekki hætta á flóði
„Breiddin á þessu flóði er eitthvað á annan kílómeter, 1000-1200 metrar og lengdin einn og hálfur kílómetri um það bil,“ segir Jón Sigurður Ólason, yfirlögregluþjónn á Vesturlandi sem flaug yfir svæðið í þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag. „Svo vorum við að reyna að átta okkur á hvaða leið áin gæti fundið sér niður úr. Og mér sýnist ekki hætta á sprengiflóði eða einhverju þannig því það er leið fyrir hana aftur niður í ána. Það tekur bara einhvern tíma að hækka yfirborðið þannig að hún finni sér farveg.“
Þannig að áin fer fram hjá stíflunni?
„Já, hún fer aldrei yfir stífluna. Hún er langhæsti punkturinn í landinu og svo breið að hún nær aldrei að ryðja sér í gegnum þetta.“
Í dag mátti enn heyra drunur úr skriðunni og ljóst að enn var nokkurt hrun.
Er eitthvað að óttast hérna?
„Mér sýnist ekki. Það þarf að fara með gát og fólk á ekki að fara ofan í þetta. Þetta er bara drulla. Og ómögulegt að segja til um hvernig þetta hagar sér. En það verður engin flóðbylgja.“
Hver verða næstu skref hjá ykkur?
„Það er bara að fylgjast með þessu, það er ekkert annað fram undan. Þetta eru bara náttúruöflin og það ræður enginn við eitt eða neitt,“ segir Jón Sigurður.