Hallgrímur Helgason hlaut íslensku þýðingarverðlaunin í ár fyrir þýðingu sína á Óþelló eftir Shakespeare. Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin í Hannesarholti í dag.
Hallgrímur segir að það sé alltaf bæði erfitt og gaman að þýða Shakespeare og ákaflega krefjandi. „Ég hef stundum líkt þessu við bókmenntalegt „boot camp“. Það er engin elsku mamma þarna, maður verður að standa sig.“
Hallgrímur segir að það sé margt sem þurfi að hafa í huga þegar þýða skal Shakespeare; það fyrsta sé að skilja textann sjálfan á blaðinu, sem geti verið erfitt. Þá sé gott að hafa aðrar þýðingar við hendina sem og fræðilegar úttektir á verkinu.
Uppsetning Þjóðleikhússins á Óþelló var vægast sagt umdeild. Hallgrímur segir að hátíðleikinn í leikhúsheiminum hafi farið dvínandi undanfarið og ungu kynslóðinni hafi tekist að afhelga leikhúsið. „Það er komin ný menning þar almenningur er til í hvað sem er. Mér fannst Njálusýningin vera breakthrough, nú eru allir til í tilraunumennsku, en það hefði ekki gengið fyrir 10 árum. En svo er eins og gagnrýnendastéttin hafi orðið eftir og skilji þetta ekki.“
Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Pétur Grétarsson ræddu við Hallgrím Helgason í Víðsjá.