Halldór: „Búið að afskrifa okkur svo oft“

18.05.2017 - 21:50
„Það er búið að afskrifa okkur svo oft að ég er hættur að hlusta á þetta, og hlusta yfirleitt bara ekkert á þetta og einbeiti mér bara að minni vinnu sem að skiptir öllu máli,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir sigur sinna manna gegn Val í fjórða leik úrslitaeinvígsins.

Sigur FH þýðir að oddaleik þarf til að skera úr um það hvort liðið verður Íslandsmeistari í handbolta árið 2017.

Spurður að því hvað hefði breyst frá síðustu leikjum sagði Halldór að FH-ingar hefðu einfaldlega verið klárir í slaginn í dag. „Strákarnir voru bara klárir í þetta. Það var ekkert þannig lagað sem breyttist. Við erum bara búnir að vinna eftir ákveðnu plani í allan vetur og fundum kannski okkar plan í dag. Við fundum þá hluti sem við vildum ná fram, okkar frumkvæði og við náðum því.“

FH-ingar voru afar sterkir varnarlega og Halldór var eðlilega sáttur með vörnina. „Varnarleikurinn var geggjaður. Það var það sem skildi liðin að í raun og veru. Það er ekkert auðvelt að koma hingað í fjórða leik með allt undir en strákarnir sýndu mikinn styrk og þrótt og þetta var frábært.“ 

Oddaleikur liðanna fer fram á sunnudag og verður í beinni útsendingu á RÚV klukkan 16.00.

Mynd með færslu
Kristjana Arnarsdóttir
íþróttafréttamaður