Á sýningu Listasafns Reykjavíkur, Einskismannslandi, má sjá hvernig hálendi Íslands birtist í meðförum íslenskra myndlistarmanna undanfarin 100 ár.
Einskismannsland – ríkir þar fegurðin ein? er viðamesta sýning Listasafns Reykjavíkur í ár. Þar eru saman komin verk yfir 30 listamanna sem tengjast hálendinu með einum eða öðrum hætti.
„Hugmyndin er sú að velta því fyrir sér hvernig íslenskir myndlistamenn hafa tekist á við hálendið og hvort það viðfangsefni endurspegli á einhvern hátt hug íslensku þjóðarinnar til hálendisins og gildismat hennar gagnvart hálendinu,“ segir Ólöf Kristín Sigurðardóttir sýningarstjóri.
Sýningin er tvískipt. Á Kjarvalsstöðum er sögulegi hluti hennar, þar sem sjónum er beint að brautryðjendum íslenskrar myndlistar á 20. öld. „Við byrjum á því að horfa til hálendisins úr hlaðinu heima. Horfum til þessa heillandi landsvæðis sem er kannski fáum kunnugt,“ segir Ólöf Kristín. „Þetta er svæði sem er frekar ógnvekjandi. Við þekkjum okkar íslensku sagnir sem endurspegla ákveðinn drunga, fjarlægð og ógn.“ Hún nefnir Ásgrím Jónsson og Kristínu Jónsdóttur sem dæmi um listamenn sem ferðuðust um hálendið og upplifðu náttúruna þar. „Maður veltir fyrir sér þessari stund þegar mannlegar tilfinningar eiga sér stað á þessu einskismannslandi, landi sem hefur ekki verið numið í rauninni.“
Í Hafnarhúsinu er samtímahluti sýningarinnar. Þar má sjá verk myndlistarmanna á 21. öld og þá snýst dæmið við. „Nú er það náttúrunni sem stafar ógn af manninum og engum dettur í hug að aðskilja þetta tvennt; mann og náttúru,“ segir Markús Þór Andrésson deildarstjóri sýninga og miðlunar. „Þetta verður strax pólitískt af því þetta snýst um hvað við ætlum að gera með þetta? Hvaða áhrif ætlum við að hafa? Hvernig viljum við móta þetta landsvæði og svo framvegis.“
Einskismannsland stendur til 30. september.