„Með rétt skipulögðum byggingum og fyrirkomulagi í fangelsum átti að vera hægt að lækna afbrotamenn af afbrotaþörfinni eða -sýkinni. Þeir áttu að öðlast betrun í húsum sem væru nógu lævíslega gerð til þess að menn yrðu betri menn á því einu að dvelja þar,“ segir Hjörleifur Stefánsson, arkitekt, um þær hugmyndir sem lágu til grundvallar hönnun og byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg árið 1872.

Hjörleifur flytur hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands á morgun um byggingarsögu hegningarhússins í ljósi betrunarheimspeki 19. aldar.

Fangar og flökkufólk í Stjórnarráðinu

Fyrsta fangelsið á Íslandi hafði verið byggt við Arnarhól um það bil einni öld áður, hús sem í dag er notað sem Stjórnarráð Íslands.

Hegningarhúsið við Arnarhól átti reyndar fyrst og fremst að vera vinnuhæli fyrir flakkara og aðra iðjuleysingja en var fljótlega einnig nýtt sem fangelsi fyrir ýmis konar lögbrjóta. Húsið gegndi þessu hlutverki næstu áratugina en aðbúnaður var einkar slæmur og stór hluti vistmanna lést áður en afplánun lauk.

Í byrjun 19. aldar var hætt að nota húsið sem fangelsi og voru líkamlegar refsingar þá teknar upp aftur á Íslandi, þrátt fyrir að hafa verið aflagðar annars staðar í danska konungsveldinu. Líkamlegar refsingar voru þannig stundaðar á Íslandi fram eftir öldinni, eða allt þar til ákveðið var að byggja nýtt hegningarhús við Skólavörðustíg auk fimm annarra víðs vegar um landið.

Fyrirmyndarfangelsi alsjárinnar

Á þessum tíma var sú hugmynd orðin útbreidd meðal heimspekinga, siðfræðinga og presta á vesturlöndum að mögulegt væri að betra glæpamenn með innilokun - og þá sérstaklega í vel hönnuðum fangelsisbyggingum.

Hugmyndin um fyrirmyndarfangelsið fékk á sig mynd í hönnun breska heimspekingsins Jeremys Bentham að húsi sem var kallað Alsjáin, eða panopticon. Hönnunin fólst í því að einangra fanga í klefum, en einn fangavörður gæti úr turni sínum í miðju fangelsisins fylgst með hverjum og einum fanga án þess að fanginn gæti séð inn í turninn. Þannig átti fanginn stöðugt að finna fyrir augnaráði varðarins og haga sér í samræmi við það.

„Einn lykillinn að þessu átti að vera guðstrú og hinn átti að vera einangrun. Einangrun og nálægð guðs í skynsamlega gerðu húsi myndi lækna menn og gera þá aftur góða,“ segir Hjörleifur. „Fanginn átti að liggja þarna, hugsa um guð og syndir sínar og iðrast. Þetta átti að hafa í för með sér betrun, iðrunin hlaut að gera fangann að betri manni.“

Í byrjun 19. aldar voru ýmsar ólíkar útgáfur af slíkum fyrirmyndarfangelsum byggðar um allan hinn vestrænan heim. „Það var verið að fangelsisvæða hvert samfélagið á fætur öðru. Þetta átti að gerast á Íslandi, það átti að byggja sex fangelsi allt í allt,“ segir Hjörleifur, meðal annars hegningarhúsið við Skólavörðustíg.

Hegningarhús í Reykjavík

Eftir að ákveðið hafði verið að reisa hegningarhús í Reykjavík hófust umræður um hvernig húsið skyldi vera. Stiftamtmaðurinn á Íslandi hafði miklar skoðanir á því hvernig fangelsið skyldi vera en fangelsismálaskrifstofan í Kaupmannahöfn hélt á lofti þeim hugmyndum sem voru orðnir útbreiddar í Evrópu um að skipulag fangelsisbyggingarinnar gæti verið notað til að betra fangana.

Danski byggingameistarinn C. Klentz var fenginn til að gera teikningar að byggingunni og voru þær samþykktar þrátt fyrir mótbárur stiftamtmanns - sem náði því þó fram að í sama húsi skyldi vera ráðhús Reykjavíkur og dómshús fyrir landið allt.

Það hvernig húsið skyldi innréttað með hliðsjón af hugmyndum um betrun og refsingu hafði þess vegna útvatnast þegar fangelsið var loksins byggt, að sögn Hjörleifs.

„Eitthvað eymdi þó eftir af þessu. Til dæmis það að þeir sem voru dæmdir til betrunarvistar áttu að vera í algjörri einangrun. Þeir máttu helst ekki sjá aðra fanga, áttu að sitja í einangrun og stunda vinnu sína. En hinir sem voru dæmdir til refsingar máttu vera í samvistum við aðra fanga, vinna í vinnustofum á daginn en vera í klefa sínum á nóttunni,” segir Hjörleifur. „Þetta hljómar kannski svolítið öfugsnúið í okkar eyrum, því hegningin með einangrun gat haft miklu alvarlegri afleiðingar.“

Það liðu þá ekki margir áratugir þar til hugmyndir um betrunarmátt einangrunarvistarinnar höfðu verið afsannaðar og meðal annars verið sýnt fram á að margir danskir einangrunarfangar fóru hreinlega beinustu leið á geðveikrahæli eftir slíka vistun.

Hegningarhúsið var líka barn síns tíma og fljótlega farið að álíta það úrelt.

„Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að strax upp úr 1925 sé farið að líta á hegningarhúsið sem úrelt fyrirbæri. Þá er farið að tala um að þetta sé gamaldags og það þurfi að fara að breyta,” segir Hjörleifur. Húsið var hins vegar í notkun allt til ársins 2016.