Hagur heimila vænkast

19.03.2017 - 19:49
 Þeim sem safna skuldum hefur fækkað verulega frá hruni og þeim sem geta lagt fyrir sparifé fjölgar, samkvæmt nýrri könnun Gallup. Ástandið hefur batnað mest hjá fólki með háskólapróf og hærri tekjur. Svarendur eru ekki flokkaðir eftir húsnæðisstöðu eða aldri.

Gallup hefur kannað þessa þætti nokkuð reglulega frá því í nóvember 2009. Spurt var hvort fólk safnaði skuldum og hér má sjá hvernig dregið hefur jafnt og þétt úr skuldasöfnun frá hruni, fer úr 12% í nóvember 2009 í 4% í síðasta mánuði.

Einnig var spurt hvort fólk notaði sparifé til að ná endum saman og fer þeim snarfækkandi sem gera það. Minni breyting hefur orðið á högum þeirra sem ná endum saman með naumindum og fjölgar þeim reyndar frá síðasta ári. Mun fleiri geta núna safnað svolitlu sparifé og þeir sem geta safnað talsverðu sparifé eru töluvert fleiri nú en skömmu eftir hrun.

Svarendur voru greindir eftir kyni, menntun, fjölskyldutekjum og stjórnmálaskoðun. Fram kemur að fjárhagur karla er almennt betri en kvenna, nærri 13% kvenna ná ekki endum saman, en það á við um rúmlega 8% karla, auk þess sem fleiri karlar ná að safna sparifé en konur. Eftir því sem menntun svarenda er meiri batnar hagurinn og eftir því sem fjölskyldutekjurnar eru hærri því betur stendur fjölskyldan.

Í könnuninni kemur líka fram að tengsl eru á milli fjárhags og hvar fólk stendur í stjórnmálum. Þeir sem kysu Sjálfstæðisflokkinn í dag eru líklegri til að standa vel fjárhagslega en kjósendur annarra flokka og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru líklegri til að ná að safna sparifé en þeir sem styðja hana ekki.

Einnig var spurt um fjárhag annarra í fjölskyldunni, bæði nánustu fjölskyldu og eins um aðra ættingja eins og frændur og frænkur. Um þrír af hverjum tíu segja einhvern í fjölskyldunni búa við fátækt. Þeim hefur farið fækkandi frá hruni, en eru nokkuð fleiri en fyrir hrun. Í samræmi við þetta hækkar hlutfall þeirra sem segja einhvern í fjölskyldunni hafa búið við fátækt árin eftir hrun. 

 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV