Guðmundur J. Óskarsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun og sérfræðingur í síld, staðfestir fréttir þess efnis að meiri síld hafi drepist í Kolgrafarfirði í dag. Ekki sé enn ljóst hversu mikið af síld drapst.
Aðstæður nú séu svipaðar og þegar 30 þúsund tonn drápust í desember, veður stillt og litlar straumar. Ástæðan fyrir síldardauðanum nú sé líklega sú sama og áður, súrefnisskortur. Hafrannsóknarstofnun undirbýr leiðangur vestur til að rannsaka og meta umfangið.
Runólfur Guðmundsson skipstjóri gekk um fjöruna í dag og segir álíka mikið hafa komið á land og í desember. „Það er geysilega mikið af dauðri síld frá Eiði og út að Kolgrafarfjarðarbrúnni,“segir hann.
Hann segir að í gær hafi hann verið á fundi með umhverfisráðherra og fulltrúum frá Umhverfisstofnun og Hafrannsóknastofnun og þá hafi verið gengið um fjöruna. Ekkert hafi þá sést af dauðri síld.