Rauði kross Íslands tekur á móti um 3000 tonnum af fötum á ári og starfsfólk hefur vart undan við að handflokka flíkurnar. Verst finnst þeim þegar heimilissorp eða matvæli eru sett í gámana.

Marius Constantin Bora sér um að tæma grenndargáma Rauða krossins. Hann tæmir hvern gám annan hvern dag, og í hvert sinn sem hann kemur, eru gámarnir stútfullir. Hann segir allt of algengt að fólk setji eitthvað allt annað en föt í gámana. „Það er alls konar. Áldósir og fiskur,“ segir Marius.

Oft setji fólk fötin í gámana án þess að hafa þau í poka. Þá þarf Marius að setja þau plastpoka, sem getur tekið töluverðan tíma. 
 
Úr gámunum fara fötin svo á flokkunarborðið. Rauði krossinn hefur vart undan við að tæma fatagámana og flokka fötin sem fólk gefur. „Það er farið yfir hverja einustu flík og athugað hvort það eru göt eða skítur,“ segir Guðbjörg Rut Pálmadóttir, flokkunarstjóri Rauða krossins. Hún segir að stundum slæðist ótrúlegustu hlutir með fötunum.  „Það er allavega. Falskar tennur. Allt mögulegt.“

Verst sé þó sorpið. „Þegar fólk setur heimilissruslið í fatagámana. Því miður gerist það bara dálítið mikið.“

Í einum tuttugu feta gámi rúmast um tvö tonn af fötum. Gámarnir fyllast á um það bil viku. Núna um jólin gerðist það svo að ekki var hægt að taka við fleiri fötum, þar sem ekki var mannskapur til að flokka þau vegna jólafría. En nú er fatasöfnunin komin aftur á fullt skrið. Föt sem ekki er hægt að selja eða gefa eru send úr landi þar sem þau eru endurnýtt eða endurunnin.