Hafa þungar áhyggjur af sjúkraflutningum

13.09.2017 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu innkaupa á sjúkrabílum í landinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sambandinu.

„Á undanförnum misserum hafa fjölmargar fréttir verið fluttar af fjölgun sjúkraflutninga um land allt. Helgast þetta meðal annars af fjölgun ferðamanna og þjónustuskerðingum á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, sem leiðir af sér lengri og flóknari sjúkraflutninga,“ segir í tilkynningunni.

Sambandið telur mikilvægt að sjúkrabifreiðar séu í góðu standi og að þeim sé reglulega skipt út. Skipulögð endunýjun liggi til grundvallar því að halda þjónustunni gangandi. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflugningamanna skorar á Velferðarráðuneytið og Rauða kross Íslands að ganga til samninga án tafar og leysa þá pattstöðu sem sambandið telur að sé komin upp.