Stjórnvöld hér á landi hafa sofið á verðinum þegar kemur að tryggja sem best starfsumhverfi kennara. Þetta er mat Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra. „Lykilforsendan að því að Ísland verði með fremsta menntakerfi í veröldinni, sem er markmiðið, er að starfsumhverfi kennara verði framúrskarandi,“ sagði ráðherrann í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.
Þetta á við um mörg fleiri ríki, að sögn Lilju, og er stærsta áskorunin sem stjórnmálamenn vilji ná utan um. Rætt var við Lilju um fullveldisafmælið á þessu ári, menntun, menningu og fleira í morgun. Hún sagði miklar breytingar nú eiga sér stað varðandi notkun á tækni og nýtilkomið hve mikið börn noti síma og snjalltæki. „Við vitum að nálgun barnanna á tungumálið er orðin allt önnur en hún var bara fyrir tíu árum.“
Mikilvægt að tækin séu á íslensku
Lilja kveðst hafa kynnst því í starfi sínum sem menntamálaráðherra að víða sé fólk sem daglega hugsi um þessi mál. Þegar hún við mennta- og menningarmálaráðuneyti ákvað hún að móta heildstæða nálgun til að snúa vörn í sókn í íslenskunni. Hún setti fram þingsályktunartillögu í 22 liðum sem miðar að því að íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins og einnig til að efla íslenskukennslu og bókaútgáfu. „Við verðum að ná því að tækin geti talað við okkur á íslensku. Við erum með mjög færa hugbúnaðarverkfræðinga og málvísindafólk sem kemur saman til að búa til eitthvað alveg stórkostlegt.“
Tungumálið þarf að fá að þróast, að mati Lilju. Mikilvægt sé þó að halda utan um íslenskuna í alþjóðlegum heimi. Hún nefndi sem dæmi að þættir á íslensku um Valhallarmorðin hefi verið seldir til erlendra efnisveitna. Áhuginn á þáttunum hafi verið mikill einmitt af því að þeir eru á íslensku.
Ósátt við að Isavia merki ekki á íslensku
Undanfarið hefur ráðherrann átt í bréfasamskiptum við stjórn Isaavia vegna merkinga á Keflavíkurflugvelli. „Ég er mjög ósátt við að við séum ekki með merkingar á íslensku.“ Erlendir ferðamenn vilji ekki bara sjá skilti á ensku. Þeir komi til landsins til að upplifa náttúruna, menninguna og góðan mat. Takist að draga fram allt það jákvæða í menningu og tungumáli farnist Íslandi vel.