Nýr formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna segir að kökunni sé ekki réttlátlega skipt. Launafólk hafi setið eftir og nú sé kominn tími til að leiðrétta það. Hann segir að við eigum að skammast okkar fyrir að bjóða upp á laun sem duga ekki fyrir framfærslu. Hann er sjötti nýi verkalýðsformaðurinn sem kjörinn er á stuttum tíma.

Þessir nýju formenn virðast eiga það sameiginlegt að boða harðari kjarabaráttu og þeir búast við hörðum átökum í lok ársins þegar fjölmargir kjarasamningar losna. Þeir gefa líka lítið fyrir nýtt samningamódel sem hefur verið í undirbúningi síðustu ár.

Í þessum hópi nýrra formanna er Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, sem kjörinn var í fyrra þegar hann fór gegn sitjandi formanni, Sólveig Anna Jónsdóttir sem tekur formlega við sem formaður Eflingar á morgun, Óskar Hrafnfjörð Gunnarsson nýr formaður Matvís. Utan Alþýðusambandsins hefur nýr formaður Ragnar Þór Pétursson tekið við Kennarasambandinu og Þorgerður Laufey Diðriksdóttir tekur við sem nýr formaður Félags grunnskólakennara í næsta mánuði. 

Sjötti formaðurinn boðar meiri hörku

Sjötti formaðurinn er Guðmundur Helgi Þórarinsson vélstjóri sem tekur á næstunni við sitjandi formanni VM,Guðmundi Rafnarssyni. Hann hafði setið sem formaður VM, Félags vélstjóra og málmtæknimanna í 8 ár. Guðmundur Helgi fékk tæp 52% atkvæða en nafni hans tæp 46%. Hann hefur áður lýst því yfir að hann vilji meiri hörku í kjarabaráttuna. 

„Mitt álit er það að við höfum setið eftir bæði láglaunafólkið og eins iðnaðarmennirnir og að kökunni sé bara ekki réttlátlega skipt. Við viljum fá nýja sýn á það hvernig henni er skipt,“ segir Guðmundur Helgi.

En hvað á hann við með meiri hörku? Vill hann að verkalýðshreyfingin fari fram með steytta hnefa? Hann segir að það þurfi ekki endilega að fara fam með stytta hnefa en menn muni örugglega spyrna fastar niður fæti. Hann bendir að launamenn hafi verið í rammasamningum. Svo hafi aðrir komið á eftir og fengið enn meira. Ríkið hafi líka farið á undan með því að skatttaka launahækkanir sem menn hafi fengið.

„Við höfum ekki fengið réttlátar hækkanir á persónuafslætti. Við teljum bara að við, launafólkið, hafi setið eftir og það er komið að því að leiðrétta það,“ segir Guðmundur Helgi.

Forustan misst samband við grasrótina

Hann segir að bæði kosning Ragnars Þórs hjá VR og Sólveigar Önnu hjá Eflingu sýni að þeir sem hafi verið í forustunni hafi misst sambandið við grasrótina. Menn vilji fá öflugri kjarabætur.

 Í síðustu kjarasamningum á almenna vinnumarkaðinum voru lögð drög að því að hér yrði komið á nýjum vinnubrögðum við gerða kjarasamninga. Taka átti upp nýtt samningamódel sem gengið hefur undir nafninu Salek. Þessum hugmyndum hefur reyndar verið stungið undir stól að minnsta kosti í bili því almennt er það skoðun innan verkalýðshreyfingarinnar að ríkið hafi ekki staðið við sinn hlut. 

„Mér finnst ómögulegt að taka upp Salek ef menn ætla bara að taka launaliðinn út og keyra á honum einum og sér. Það þarf að taka allan pakkann. Við þurfum að fara í vaxtamálin, húsnæðismálin og velferðarmálin. Við getum ekki bara tekið eitt púsl út úr púsluspilinu og bara notað það, “ segir Guðmundur Helgi.  Hann bendir á að menn séu ósáttir við röðunina hjá stéttarfélögunum. Menn vilji vera á réttum stað áður en þeir loki sig inni í Saleksamkomulagi.

Vill breyta vinnubrögðum ASÍ

Formaður VR og formenn bæði verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar hafa lýst því yfir að þeir stefni að því að fella Gylfa Arnbjörnsson forseta ASí þingi Alþýðusambandsins í haust.

„Það er ekkert kappsmál hjá mér að koma Gylfa frá. Mér finnst ASÍ svolítið hafa misst sjónar á því sem þeir eiga að vera gera. Mér finnst eins og þeir snúi öfugt í stólnum og horfi og mikið inna á við. Þeir eiga að vera tala fyrir okkar hönd út á við. Vera okkar talsmenn í sambandi við til dæmis vaxtamál og húsnæðismál. Ég vil breyta vinnubrögðum ASÍ en ég er ekkert farinn að spá í einstaklinga eða persónur og leikendur þar,“ segir Guðmundur Helgi.

1. maí, baráttudagur verkalýðsins. verður á þriðjudaginn. Hver á boðskapurinn í kröfum dagsins að vera?

„Við teljum okkur vera eina af ríkustu þjóðum í heimi og boðskapurinn þar á að vera að hér geti allir lifað. Við eigum að skammast okkar fyri það að vera bjóða upp á laun sem duga ekki fyrir framfærslu,“ segir Guðmundur Helgi.