Embætti Landlæknis fagnar niðurstöðum nýrrar alþjóðlegrar rannsóknar sem birt var í læknatímaritinu Lancet og sýnir fram á að allt áfengi sé skaðlegt heilsunni. Viðskiptavinir í Vínbúðinni í dag höfðu þó ekki miklar áhyggjur af þessum tíðindum, og trúðu þeim varla.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu The Lancet, sem er eitt virtasta vísindatímarit heims í heilbrigðismálum. Niðurstöðurnar byggjast á könnunum á áhrifum áfengisneyslu á heilsu íbúa í 195 löndum á 26 ára tímabili. Rannsóknin náði til 28 milljón manns. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að hver einasti sopi af áfengi sé skaðlegur heilsunni, alveg sama hvers konar áfengi er drukkið, hvort sem það er rauðvín, bjór, viskí eða ópalskot.
„Þessi tíðindi koma okkur ekki neitt á óvart,“ segir Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis. „Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á þetta og þessi rannsókn sem er verið að vitna í núna er samantekt af fjölmörgum rannsóknum sem við höfum verið að skoða sem allar sýna að áfengi hefur neikvæð áhrif á heilsuna.“
Dóra fagnar þeirri athygli sem rannsóknin hefur vakið í dag. „Og virkilega jákvætt að sjá að þessu hefur mikið verið dreift á samfélagsmiðlum og vonandi er almenningur bara tilbúinn til þess að horfast í augu við skaðsemi áfengis.“
Allt er gott í hófi
Fyrir utan Vínbúðina í Skútuvogi höfðu viðskiptavinir hins vegar ekki miklar áhyggjur, eins og sjá má í myndskeiðinu hér að ofan.
„Ég tek nú ekki mark á öllum þessum rannsóknum sem eiga sér stað af því að það er allt gott í hófi,“ segir Lilja Guðmundsdóttir.
Það var að koma ný rannsókn sem sýnir fram á að allt áfengi sé óhollt, hvað finnst þér um það?
„Ég á bara mjög bágt með að trúa því,“ segir annar viðskiptavinur sem fréttastofa rakst á.
Heldurðu að þetta hafi einhver áhrif á þig?
„Nei.“
Nú hafa verið birtar nokkuð margar rannsóknir sem sýna fram á að rauðvín sé hollt fyrir hjartað, hverju á fólk að trúa?
„Þessi samantektarrannsókn tekur á þessu,“ segir Dóra Guðrún. „Og ef maður skoðar þessar rannsóknir, þá eru þær að vissu leyti gallaðar, og að sýna fram á að kannski eitt glas af ákveðinni tegund af þrúgu geti hugsanlega komið í veg fyrir ákveðinn hjartasjúkdóm. En þegar heildarmyndin er skoðuð eru neikvæðu áhrifin sterkari.“