„Hættum að útskrifa karla og kerlingar“

27.04.2017 - 10:22
„Í listnámi held ég að það skipti mjög miklu máli að fólk byrji ungt,“ segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona. Henni finnst fáránlegt að listnám sé kennt á háskólastigi hér á landi, en sjálf þurfti hún að fara til útlanda til að læra leiklist þegar hún var 17 ára gömul.

Í Framapoti í kvöld verður sjónum beint sérstaklega að listamönnum og listnámi. Þátturinn er á dagskrá á RÚV kl. 20.05, en brot úr honum má sjá hér fyrir ofan.

Steinunn Ólína segir að fólk geti orðið listmenn á barnsaldri, um leið og það finnur sína köllun. „Mér finnst alveg fáránlegt að listnám sé á háskólastigi. Við ættum að taka við þessu unga fólki þegar maður sér að það er eiginlega alveg augljóst hvert það stefnir. Þá á það að fá að stunda sitt listnám sex, sjö, átta, níu, tíu, ellefu ára.“

Steinunn Ólína segist nánast hafa alist upp í leikhúsi og því varla þekkt neitt annað sem barn. „Það lá alltaf ljóst fyrir að ég ætlaði að læra leiklist. Ég gat ekki tekið inntökuprófin í leiklistarskólanum hér því þeir vildu ekki taka inn unga nemendur,“ segir Steinunn, sem hætti í menntaskóla hér heima og byrjaði 17 ára í leiklistarskóla í London. „Ég er rétt tvítug þegar ég útskrifaðist og ég var yngsta leikkona landsins í einhver sex ár. Það stóð mér algjörlega fyrir þrifum vegna þess að ég fékk svo brjálæðislega mikið að gera, af því að ég var svo ung og ég hafði svo mikið forskot.“

„Mér finnst að það eigi að hætta að útskrifa karla og kerlingar út úr leiklistaskólanum, og taka þar inn miklu yngri nemendur. Í listnámi held ég að það skipti mjög miklu máli að fólk byrji ungt,“ segir Steinunn Ólína.