Björgvin Björgvinsson, yfirlögregluþjónn, hefur verið færður úr starfi yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna ummæla sem hann lét falla um fórnarlömb kynferðisbrota. Ekki fæst uppgefið hvort Björgvin muni starfa áfram innan kynferðisbrotadeildarinnar. Ummælin lét Björgvin falla í samtali við DV í gær. Í frétt blaðsins um fjölgun nauðgana á síðasta ári er haft eftir Björgvini að oft setji fólk sig í hættu með drykkju og dópneyslu. Þá segir hann erfitt hve algengt sé að fólk varpi ábyrgðinni yfir á aðra þegar það ætti frekar að líta í eigin barm og bera ábyrgð á sjálfu sér.
Ummælin vöktu hörð viðbrög og í kjölfarið átti Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, samtal við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún óskaði eftir skýringu á ummælum Björgvins. Í morgun sendi lögreglan svo frá sér tilkynningu þar sem ummælin eru hörmuð og þau sögð á engan hátt endurspegla þau viðhorf eða afstöðu sem embættið hefur til kynferðisbrota eða fórnarlamba þeirra. Þá segir í tilkynningunni að Björgvin hafi farið fram á það sjálfur að vera færður úr embætti yfirmanns kynferðisbrotadeildarinnar og beðist afsökunar á ummælum sínu þar sem þau séu til þess fallin að skaða trúverðugleika rannsókna lögreglunnar á þessu sviði.
Rannsóknir á kynferðisbrotum munu héðan í frá heyra undir Friðrik Smára Björgvinsson, yfirmann rannsóknardeildar lögreglunnar. Ekki fæst uppgefið hvort Björgvin muni starfa áfram innan kynferðisbrotadeildarinnar. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri, vildi ekki tjá sig um málið í dag og ekki náðist í Björgvin við vinnslu fréttarinnar.