Ef gýs í Holuhrauni fram á vor er hætt við gróðurskemmdum og skaða á lífríki í ám og vötnum. Þetta segir Jónas Elíasson, prófessor í jarðskjálftaverkfræði. 450 kíló af brennisteini koma upp á hverri sekúndu í eldgosinu.

Ekkert lát er á eldgosinu í Holuhrauni sem hófst fyrir tveimur og hálfum mánuði. Þó að glóandi hraunstraumurinn gleðji vissulega augað er það ekki fegurðin sem gerir þetta gos merkilegt.  „Það sem gerir eldgosið í Holuhrauni sérstakt er fyrst og fremst hvað kemur mikið upp af þessum brennisteini,“ segir Jónas, sem hefur ásamt hópi vísindamanna mælt brennistein í mekkinum frá Holuhrauni. „Það koma 450 kíló á sekúndu. Þetta er eins og tvö til þrjú þúsund vörubílar á dag af brennisteini. Sú staða sem við erum hræddir við, en við getum ekki sagt neitt mikið meira um, það er þessi uppsöfnun.“

Það gæti gerst, ef það verða miklar vetrarstillur í að minnsta kosti tvo daga á gosstöðvunum. Þá gæti orðið til afar stórt ský sem væri kílómetra þykkt og 60 kílómetrar í þvermál. Hætta væri sú að slíkt ský myndi reka af stað og lenda á byggð. En hversu líklegt er að þetta gerist? „Það er ekki mjög líklegt,“ segir Jónas.

Hann segir að það gæti orðið bagalegt ef gosið héldi áfram fram á vor. „Þá koma niður stórar gusur af menguðu vatni sem bráðnar úr sköflum og jöklum og þá er hætta á því að við fáum gróðurskemmdir þar sem þetta vatn lendir á viðkvæmum gróðri, huganlega líka einhverjar skemmdir á lífríki í ám og vötnum.“