Útlit er fyrir að ekki verði lengur hægt að bjóða fólki með þroskahömlun upp á diplómanám í myndlist. Fjárveiting hefur ekki fengist til að halda námsbrautinni áfram. Fyrsti og þá líklega eini útskriftarhópurinn lýkur námi í vor.

Myndlistaskólinn í Reykjavík hóf fyrir tæpum tveimur árum að bjóða fólki með þroskahömlun upp á diplómanám í myndlist. Margrét M. Norðdahl, deildarstjóri námsins, segir að 12 nemendur hafi verið teknir inn í námið haustið 2015 og þeir útskrifist 23. maí.

Myndlistaskólinn fékk fjárveitingu til að setja diplómanámið á laggirnar og varði talsverðri vinnu í að skipuleggja námið. „Mér finnst þetta bara æðislegt, það besta í heimi,“ segir Birkir Sigurðsson, einn nemanda. Hann segist hafa lært allt mögulegt í náminu, til að mynda að gera bíómyndir og mála.

„Við höfum verið í samstarfi við Iceland Airwaves, við höfum verið í samstarfi við RIFF, List án landamæra,“ segir Margrét.

Ísak Óli Sævarsson, annar nemandi hefur verið í samstarfi við Prins Póló um gerð tónlistarmyndbands. Hann lætur vel af náminu.

En nú er óvíst hvort unnt sé a halda áfram með námið. „Það hefur verið mikill niðurskurður í þennan málaflokk,“ segir Margrét. 

Þau svör hafa fengist frá Fjölmennt, sem sér um að útdeila ríkisfé til fullorðinsfræðslu fatlaðra, að ekki sé lengur hægt að styrkja skólann til að halda náminu áfram. Áslaug Thorlacius, skólastjóri Myndlistarskólans í Reykjavík segir ráðuneytinu hafi verið sent bréf í febrúar og svar hafi borist fljótlega en niðurstaða í málinu liggi ekki fyrir. „Ráðuneytið er í einhvers konar umhugsunarhléi,“ segir Áslaug. 

„Okkur finnst mjög skrítið, þú ert búinn að eyða pening, tíma, kröftum í að byggja upp þessa námsleið, að svo sé einhvern veginn slaufað, jafnvel án þess að það berist skýr svör við beiðni um að við óskum eftir að halda áfram,“ segir Margrét. 

Mannréttindi að fá að læra
„Það er auðvitað réttur fólks að  læra, það eru mannréttindi,“ segir Áslaug. Undir það tekur Elín Fanney Ólafsdóttir nemandi. „Og það skiptir líka svo miklu námi fyrir fatlaða krakka að mennta sig meira eftir menntaskóla. Það eiga allir jafn mikinn rétt á menntun,“ segir Elín. 

„Atvinnuleysi er töluvert, það er lítið framboð af öðru námi, þannig að er jafnvel verið að dæma fólk til þess að vera heima,“ segir Margrét.