Hælisleitendum frá Georgíu fjölgar

12.08.2017 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Dómsmálaráðherra leggur áherslu á að Útlendingastofnun afgreiði hælisumsóknir hraðar og að tilhæfulausar umsóknir séu afgreiddar samdægurs. Sérfræðingum sem sinna umsóknum verður fjölgað. Fyrrverandi velferðarráðherra segist hafa bent dómsmálaráðherra á vandann í vor.

 

Beiðnum um hæli hér á landi fer fjölgandi og umfram það  sem spáð var fyrir sumarið. 

„Ég segi því miður vegna þess að meirihluti þessara mála eru tilhæfulausar umsóknir,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.

Þá segir hún samsetningu hópsins hafa breyst aðeins, umsóknum hafi fækkað frá Makedónum og Albönum, en fjölgað frá Georgíumönnum, en þeir þurfa ekki lengur áritun til að komast inn á Schengensvæið. Hún segist hafa lagt áherslu á aðgerðir vegna umsókna frá Georgíu og fleiri löndum sem fengið hafa áritunarfrelsi.

„Einkum og sérílagi að málsmeðferðartíminn sé styttur eins og hægt er og mér skilst að það sé farið að vinna eftir því verklagi að afgreiða umsóknir á einum degi eða samdægurs þegar um er að ræða tilhæfulausar umsóknir frá umsækjendum frá öruggum löndum.“

Sigríður segir aðstæður þessara umsækjenda geta verið mismunandi og öll mál séu skoðuð, en hverfandi líkur séu að fólk frá löndum sem skilgreind eru sem örugg, fái hér hæli. Dómsmálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í gær tillögur til að hraða málsmeðferð, meðal annars með því að ráða tíu sérfræðinga til Útlendingastofnunar.

„Sérfræðingum sem einbeita sér bara að afgreiðslu þessara mála. Við höfum líka gripið til ákveðinna aðgerða í samvinnu við lögregluna vegna þess að lögreglan sér um brottflutning ef þarf, þá er það lögreglan sem sér um það. Og við erum með átak í gangi um brottflutning og vísum fólki  sem komið er með tilhæfulausar umsóknir frá landinu með endurkomubanni inn á Schengensvæðið.“

Sigríður segist vonast til að þetta verði til þess að draga úr ásókn fólks frá þessum löndum.  Eygló Harðardóttir fyrrverandi velferðarráðherra gagnrýnir dómsmálaráðherra á Facebooksíðu sinni í morgun fyrir að hafa sagt í viðtali við Rúv að hún hafi ekki vitað hvort Útlendingastofnun hefði þurft þennan liðsauka fyrr. Hún hafi bent dómsmálaráðherra og stjórnarmeirihlutanum á það í vor að Útlendingastofnun væri fjársvelt og fjöldi hælisumsókna væri vanáætlaður.
 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV