Hiti hefur hækkað það mikið í Þingvallavatni að hann er farinn að hafa áhrif á vistkerfi vatnsins. Það leggur mjög sjaldan og ef fram heldur sem horfir má búast við því að tærleiki þess og litur breytist.

Þingvallavatn leggur ekki lengur 

Líffræðingarnir, Finnur Ingimarsson, forstöðumaður Náttúrustofu Kópavogs og Hilmar Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands hafa tekið þátt í rannsóknum á Þingvallavatni. Grannt hefur verið fylgst með ýmsum eðlisþáttum Þingvallavatns, hita þess og lífríki í rúma hálfa öld.  

Finnur segir að mælingarnar sýni að áhrif hækkandi hita séu farin að segja til sín. „Ísadögum á Þingvallavatni fækkar það er mjög afgerandi sérstaklega eftir síðustu aldamót“

Fyrir um 50 árum var Þingvallavatn ísilagt í meir en hundrað daga á ári, frá janúar og fram apríl. En ekki lengur. „Það er búið að vera bara núll. Það hefur ekki lagt í einhver ár.“

Hækkandi lofthiti og heitara vatn

Mælingar sýna að Þingvallavatn hefur hlýnað og það hefur gerst í takt við hlýnun loftslags.  Hilmar segir að hlýnunin sé mest á haustin og vorin.  „Hitastigshækkunin sko í heitustu mánuðunum er allt að því 2 gráður á þessu tímabili frá 1962 til 2017.“
 
Og það hafa átt sér stað breytingar í vistkerfi vatnsins eins og sjá má þegar niðurstöður rannsókna sem gerðar voru fyrir meir en 40 árum eru bornar saman við nýrri mælingar.   
 
Finnur: „Tegundir sem voru algengar þá eru orðnar sjaldgæfari núna og aðrar eru algengari núna sem voru sjaldgæfari þá.“

Umtalsverðar breytingar hafa orðið á þörungum í vatninu 
 
Hilmar: „Þær eru tvær þrjár tegundir sem hafa borið uppi frumframleiðslu í Þingvallavatni. Þessar tegundir þær hurfu eitt árið fyrir skömmu og við vitum ekki dæmi þess að það hafi gerst áður.“

Undirliggjandi og kraumandi

Ef fram heldur sem horfir verða þessar breytingar allverulegar.

Hilmar: „Í Þingvallavatni getum við átt von á því að tærleiki þess minnki, liturinn breytist.“ Og jafnvel að bleikjan og urriðinn í vatninu verði fyrir skakkaföllum. Áhrif hækkandi hita vatnsins geti verið lengi undirliggjandi og kraumandi. „Það er undirliggjandi í gangi og síðan er bara kornið sem fyllti mælinn og þá gerist eitthvað.“