Landsmenn geta keypt rafmagn frá átta mismunandi raforkusölum, óháð því hvar á landinu þeir búa. Sérfræðingur í orkusparnaði segir að raunveruleg samkeppni sé á smásölumarkaði með raforku.
Flestir nota rafmagn á hverjum einasta degi, oftast oft á dag. Færri vita eflaust að það er hægt að kaupa rafmagn af átta mismunandi orkusölum, algjörlega óháð því hvar á landinu maður býr. Á vefsíðunni Aurbjörgu má finna samanburð á raforkuverði fyrirtækjanna. Þar kemur fram að Orka heimilanna býður lægsta verðið, 5,89 krónur á kílóvattsstundina, en Orkusalan er með hæsta verðið, 6,44 krónur. Næstlægsta verðið er hjá Orkubúi Vestfjarða.
„Eftir því sem þetta kemur meira inn í umræðuna, mismunandi orkuverð, þá höfum við séð fólk koma til okkar í auknum mæli,“ segir Elías Jónatansson, orkubússtjóri hjá Orkubúi Vestfjarða.
Hvaðan kemur fólkið sem er að bætast í hópinn?
„Það er alls staðar að af landinu, en það er kannski helst af suðvesturhorninu af því að þar búa nú flestir,“ segir Elías.
Við ofangreindan lista má svo bæta Íslenskri orkumiðlun sem býður einnig upp á rafmagn til sölu, en á heimasíðu fyrirtækisins fást ekki upplýsingar um verð og fyrirtækið er hvorki með í verðsamanburði á heimasíðu Aurbjargar né á heimasíðu Orkuseturs.
En þótt munur sé á raforkuverði er ekki öll sagan sögð, því þá á eftir að dreifa rafmagninu. Og það fer eftir því hvar fólk býr, hvaða fyrirtæki sér um dreifinguna, og um þann þátt hefur fólk ekkert val. Þeir sem búa á Akureyri versla við Norðurorku og flestir þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu versla við Veitur, svo dæmi séu tekin.
Ef við miðum við 5.000 kílóvattsstunda notkun á ári fyrir heimili í Reykjavík kemur í ljós að með dreifingarkostnaði hljóðar rafmagnsreikningurinn upp á rúmar 92.500 krónur á ári, sé verslað við orkusalann með lægsta verðið, en tæpar 96.000 krónur sé verslað við þann með það hæsta. Þarna munar tæpum 3.500 krónum á ári.
„Það er virk samkeppni á þessum markaði,“ segir Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs. „Mörgum finnst það kannski skrítið vegna þess að verðmunurinn er mjög lítill. En í raun og veru er það eðlilegt miðað við eðli vörunnar. Þetta er bara kílóvattsstund og allir að bjóða nákvæmlega sömu vöru. Það er enginn munur, það er enginn með ofurkílówattsstund eða gæðakílóvattsstund. Þetta er bara kílóvattsstund. Og þegar þú ert með slíka hrávöru, þá er eðlilegt að allir elti lægsta verð og séu mjög þéttir nálægt hver öðrum.“
Sigurður segir að neytendur geti hins vegar haft áhrif á þessa samkeppni, og jafnvel lækkað verð, með því að vera duglegir við að skipta um raforkusala. Og það er einfalt að skipta.
„Þetta eru kannski 3.500 krónur á ári en á móti kemur að það er engin breyting, þetta er ókeypis sparnaður, þú ert ekki að minnka þjónustu við þig, og þú getur bara skipt um orkusala og fengið það lægsta og farið út að borða fyrir afganginn,“ segir Sigurður.
Fréttin hefur verið uppfærð.