Ef samið verður um hóflegar launahækkanir verður hægt að lækka vexti hér á landi, að sögn Gylfa Zoega, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmanns í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.

Þjóðarbúið er vel undirbúið undir mögulegan skell vegna gjaldþrots WOW air, sagði Gylfi í viðtali í Silfrinu í dag. Því er í fyrsta sinn í sögunni, hér á landi, hægt að bregðast við samdrætti við vaxtalækkun. Hann sagði þó alveg óljóst á þessari stundu hve mikil áhrifin af gjaldþrotinu verði og hve mörg fyrirtæki, eins og til dæmis hótel og veitingahús, fari í þrot. Þá sagði hann vanda hve hátt launahlutfall er hjá útflutningsgreinum, til dæmis hafi hótelin ekki greitt hærra hlutfall í laun síðan árið 2003.

„Landið sjálft er vel undirbúið vegna þess að skuldir heimila og fyrirtækja hafa lækkað mikið. Það eru engin erlend lán núna hjá óvörðum aðilum eins og við sáum 2008. Það er gríðarlegur gjaldeyrisforði, hann er eiginlega óþægilega stór, 700 milljarðar og ríkissjóður er búinn að greiða niður sínar skuldir svo að landið, fyrir utan þetta háa verðlag, getur mætt þessum skelli mjög vel, ef þetta verður mikill skellur, sem er óvíst,“ sagði Gylfi. 

Að hans mati er afar mikilvægt að krónan haldist stöðug. „Í öðru lagi er hægt, í fyrsta sinn í sögunni, að bregðast við samdrætti með vaxtalækkun. Vextir eru 4,5 prósent, nú eru 1600 manns búin að missa vinnuna eða ef það myndast verulegur slaki, en ef atvinnuleysi fer að vaxa meira þá er í fyrsta sinn hægt að lækka vexti til að örva eftirspurn sem kemur öllum vel.“ Lykillinn að því sé að samið verði um hóflegar launahækkanir. Slíkt telur hann undir verkalýðsforystunni komið, að verkföllum verði aflýst og að samið verði um hóflegar hækkanir fyrir fólk á lægstu launum en hækkanirnar ekki látnar ná til fólks í öllum tekjuhópum.  

„Það er staðreynd að verkalýðshreyfingin ræður þessu. Ef hún semur um miklar hlutfallslegar hækkanir þá hefur hún þær afleiðingar að verðlag hækkar og fólk fer að búast við verðbólgu og þá er ekki hægt að lækka vexti, þá þurfa þeir að fara upp og helst meira en verðbólgan.“ Hann segir hægt að bæta kjör fólks á lægstu launum með ýmsu öðru en ríflegum launahækkunum, til dæmis með ódýru húsnæði. Hann tók dæmi um einstæða móður sem hrakist hefur úr einu leiguhúsnæði í annað. Fólki í slíkri stöðu sé brýnt að hjálpa en að það þurfi að gera með öðrum hætti en að hækka laun allra í landinu.