Pétur Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun segir að hægt verði að bjarga Notre Dame kirkjunni í París ef steinhvelfingin hefur haldið. Hins vegar verði erfitt að finna timbur í tréverkið og endurbyggingin verði dýr. Hægt er að sjá á myndum að hvelfingin stendur enn en ekki er vitað hvort hún hafi veikst við hitann frá eldinum.

Pétur skoðaði Notre Dame kirkju fyrst árið 1984 í námsdvöl í París. Þá dvaldi hann heilan dag í kirkjunni með þekktum listfræðingi sem fór með honum og öðrum nemendum í gegnum alla kirkjuna til að greina byggingarlist hennar og listaverkin í kirkjunni. 

Hann segir að kirkjan sé gríðarlega mikilvæg út frá sjónarhóli byggingarlistar.
„Ég held að það megi segja að þessar síðgotnesku dómkirkjur miðalda, þetta eru meðal helstu gersema í byggingarlist Evrópu og hápunktur í húsagerðarlist síðmiðalda." 

Ekki einn arkitekt heldur margir hönnuðir

Gotnesku kirkjurnar voru yfirleitt margar aldir í byggingu og að þeim komu margar kynslóðir af smiðum, handverksmönnum og húsameisturum. Á þessu tímabili hafi ekki einn maður teiknað hana heldur hafi margir komið að verkinu sem smám saman hafi verið að þróa og breyta henni.

„Og það er kannski það sem er svo sérstakt og heillandi við gotneska stílinn að hann var ekki teiknaður eftir einni formúlu eins og kannski var svo síðar með endurreisninni og barroktímanum, þá kom vitundinn um höfundinn svo sterkt inn, arkitektinn einn nafngreindan mann. Þannig að það er enginn nafngreindur höfundur sem teiknaði Notre Dame, það voru margir sem komu að þessu."

Gotneski stíllinn verkfræðilegt afrek

Pétur fylgdist náið með fréttum af brunanum. Ekki hafi verið ljóst fyrst af fréttaflutningnum hvort steinhvelfingarnar í kirkjunni hefðu haldið. Hann segir að þakið á kirkjunni hafi verið tvöfalt, annars vegar steinhvelfingar en ofan á því var mikið timburþak sem var ekki hluti af burðarvirki kirkjunnar. „Það var það sem fuðraði upp og þess vegna var þessi mikli eldur svona áberandi." 

Steinhvelfingarnar eru oddbogar sem eru styrktarstoðir svifstoðir og eru áberandi fyrir útlit kirkjunnar. Gotneski stíllinn hafi í raun verið verkfræðilegt afrek. Hann hafi þróast út úr rómverska stílnum þar sem var hálfbogi yfir í oddboga sem hafi gefið mönnum tækifæri til að gera kirkjuskipið breiðara og hærra. Það hafi verið tækninýjung að hafa þessar utanáliggjandi hliðarsperrur sem hafi verið afrek í byggingarlist. 

„Þannig að lykilatriði í því hvort að kirkjan myndi eyðileggjast eða ekki var hvort að steinhvelfingarnar yfir kirkjuskipinu myndu halda. Ef að þær myndu brotna niður þá fór allt jafnvægið úr byggingunni og þá hefðu mögulega veggirnir hrunið inn á við. Það var í rauninni ekki fyrr en ég sá myndir núna í morgun að það var ljóst að þetta hafði ekki gerst."

Hrunið hafi úr einni hvelfingunni en að öðru leyti virðast burðarbogarnir vera heilir. Þó geti verið að hitinn hafi að einhverju leyti veikt steinhleðsluna en það sé væntanlega verið að rannsaka í dag.

 

Endurbyggingin verður dýr og tekur tíma 

„Ef að steinhvelfingin undir timburþakinu heldur þá er hægt að bjarga kirkjunni. Og ég trúi ekki öðru en að það verði hægt í þessu tilviki en það mun eflaust taka langan tíma og það mun kosta mikið. Það verður erfitt að finna timbur í trévirkið ef menn vilja endurgera það nákvæmlega eins. Og hugsanlega gera menn einhverjar þær tæknilegu endurbætur sem gera það að verkum að svona mun ekki gerast í framtíðinni."  

Pétur rifjar upp orð þýska listfræðingsins sem sýndi honum kirkjuna á sínum tíma sem sagði að æskilegt væri að hafa það í huga að fólkið sem byggði kirkjuna hafi ekki kunnað að lesa. 

Eins og risavaxnar teiknimyndasögur 

„Og af hverju skiptir það máli? Vegna þess að þessar gotnesku kirkjur voru eins og risavaxnar teiknimyndasögur. Þær voru byggðar fyrir fólk, áður en farið var að þýða biblíuna á þjóðtungur. Það voru bara lærðir menn sem kunnu að lesa bækur og texta en byggingin var ein allsherjar myndskreyting. Maður getur ímyndað sér að fyrir venjulegan mann á 13. og 14. öld að koma inn í og líta augum þessa dýrð, þessar kirkjur voru bara eins og menn væru komnir í himnaríki. Þannig að það er mikilvægt að skilja það og það er þáttur í því hvers vegna þessar byggingar eru svona sérstakar og dýrmætar."