Háar sektir fyrir samráð í fraktflutningum

epa05030548 (FILE) A file picture dated 06 February 2012 shows an Air France plane after taking off from the airport of Montpellier, France. Two Air France planes travelling from the United States to Paris were diverted on 17 November 2015 for security
 Mynd: EPA
Evrópusambandið sektaði í dag ellefu evrópsk flugfélög um hátt í eitt hundrað milljarða króna fyrir ólöglegt verðsamráð í fraktflutningum. Franska flugfélagið Air France fékk hæstu sektina.

Framkvæmdastjórn ESB fyrirskipaði á sínum tíma rannsókn á meintum brotum flugfélaganna á árunum 1999 til 2006. Niðurstaðan varð sú að þau hefðu haft með sér samráð um eldsneytisverð og tryggingar. Árið 2010 var tilkynnt um að félögin yrðu sektuð um háar upphæðir vegna brota á samkeppnistilskipunum ESB. Flugfélögin undu þessu ekki og kærðu til Evrópudómstólsins. Hann ógilti ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar fyrir tveimur árum vegna formgalla.

Framkvæmdastjórnin lét ekki þar við sitja heldur tók málið upp að nýju. Niðurstaðan varð sú að flugfélögin ellefu eiga að greiða tæplega 800 milljónir evra í sekt, eða nokkuð yfir 90 milljarða króna. Í yfirlýsingu samkeppnismálastjóra ESB segir að milljónir fyrirtækja nýti sér fraktflutninga evrópskra flugfélaga. Þau hafi orðið fyrir skaða vegna samráðsins.

Air France er sektað um hæstu upphæðina, rúmlega 21 milljarð króna. Hollenska flugfélagið KLM kemur þar á eftir með fimmtán milljarða. Í yfirlýsingu sem félögin sendu frá sér í dag segir að farið verði yfir ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar og henni að líkindum áfrýjað.

Flugfélagið SAS fær einnig skell fyrir samráðið. Það þarf að borga yfir átta milljarða íslenskra króna í sekt, sömu upphæð og árið 2010.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV