Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Swansea, var í kvöld kjörinn Íþróttamaður ársins.
Þetta var tilkynnt á árlegu hófi Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í Hörpu. Þetta er í annað sinn sem Gylfi er kjörinn Íþróttamaður ársins en hann hlaut einnig nafnbótina árið 2013.
Gylfi fékk 430 stig en sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir, sem varð önnur í kjörinu, fékk 390 stig. Mest er hægt að fá 460 stig.
Gylfi var í lykilhlutverki íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar en liðið náði stórkostlegum árangri á sínu fyrsta stórmóti. Gylfi spilaði hverja einustu mínútu í leikjum Íslands. Gylfi hefur þar að auki farið fyrir liði Swansea í ensku úrvalsdeildinni og hefur hann verið einn allra besti leikmaður liðsins það sem af er leiktíðinni. Hann hefur skorað 14 deildarmörk fyrir Swansea og lagt upp fjölda marka.
Hrafnhildur Lúthersdóttir, sundkona úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, varð á árinu fyrsta íslenska sundkonan til að vinna til verðlauna á Evrópumótinu í 50 metra laug þegar hún vann til þrennra verðlauna á EM í Lundúnum. Hrafnhildur vann silfurverðlaun í 50 og 100 metra bringusundi og brons í 200 metra bringusundi.
Hún komst svo í úrslit í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Ríó og endaði í 6. sæti, sem er besti árangur íslenskrar sundkonu frá upphafi. Þá sló Hrafnhildur fjölmörg Íslandsmet á árinu.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, kylfingur úr GR, hafnaði í þriðja sæti í kjörinu. Ólafía tryggði sér á árinu keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni í golfi en um er að ræða sterkustu mótaröð kvenna í heimi.
Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur kylfingur kemst alla leið á LPGA-mótaröðina en hún varð á þessu ári annar kylfingurinn til að komast á LET-mótaröðina, sterkustu mótaröð Evrópu. Þá fagnaði Ólafía Þórunn einnig sínum þriðja Íslandsmeistaratitli á árinu.