Gunnar Smári undirbýr útgáfu tímarits

13.09.2017 - 10:50
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Gunnar Smári Egilsson, fyrrum ritstjóri Fréttatímans, undirbýr nú útgáfu á nýju mánaðarlegu tímariti. Hann segir tímaritið verða með svipuðu sniði og Tímarit Máls og menningar og Þjóðmál. Fjölmiðlun sé komin aftur á 19. öldina og drifin áfram af áhugafólki og án gróðavonar.

„Þetta er allt í undirbúningsskrefunum. Fjallað verður um samfélagsmál og pólitík í tímaritinu,“ segir Gunnar Smári. Tímaritið verður bæði gefið út á pappír og á vefnum. „Þetta verður klassískt form eins og Tímarit Máls og menningar og Þjóðmál. Hugmyndin er að þetta verði bæði blaðamennska, fræðimennska og greining,“ segir Gunnar sem stefnir að því að gefa fyrsta eintakið út í október.

Tímaritið verður ekki á auglýsingamarkaði, heldur er  hugmyndin að tekjur komi af áskrift. „Tímaritið verður eins og samlag þeirra sem leggja til efni. Svona eins og fjölmiðlun 19. aldarinnar. Fjölmiðlun er komin þangað og mesti krafturinn í fjölmiðlun í dag er í áhugamennsku. Bisnessinn hefur brotið þetta niður. Í lok síðustu aldar gat fjölmiðlun borið uppi fjölmennar ritstjórnir. Til dæmis var alltaf hagnaður af útgáfu Morgunblaðsins en nú er enginn hagnaður lengur.“ Því þurfi að leita að öðrum fordæmum úr sögunni um það hvernig hægt sé að halda uppi öflugri samfélagsumræðu. „Ný félagsrit og Fjölnir, við erum bara komin þangað aftur.“

Fréttatíminn hætti rekstri í apríl síðastliðnum. Stuttu síðar stofnaði Gunnar Smári Sósíalistaflokk Íslands. Hann segir ekki ákveðið hvort flokkurinn bjóði fram í borgar- og sveitarstjórnarkosningum næsta vor. Flokkurinn haldi þing í október þar sem ákvörðun um framboð verður tekin.

Dagný Hulda Erlendsdóttir