Guðni Th. Jóhannesson, nýkjörinn forseti, talaði tæpitungulaust í útvarpsviðtölum á Rás 1 og Rás 2 nú í morgun. Guðni var fyrst gestur Ævars Kjartanssonar og Jóns Ólafssonar þættinum Samtali og strax á eftir ræddi hann við Hallgrím Thorsteinsson í Helgarútgáfunni. Hlusta má á viðtölin í spilara hér fyrir ofan og neðan.

Guðni sagðist vera þreyttur á eigin frösum og fór hann yfir víðan völl í viðtölum.  Hann sagði að sér liði alveg einstaklega vel nú í morgunsárið. Hann hlakkaði til að kynnast embættismönnum á skrifstofu forseta Íslands sem hann hyggst hlusta á og læra af. Hann sagðist ekki kvíðinn að taka við áskorunum embættisins. „Ég vil ekki og ætla mér ekki og tel mig ekki þurfa að hefja þessa vegferð með kvíða í brjósti. Tilhlökkun væri frekar rétta orðið,“ sagði Guðni í Samtali.

Fræðin frelsa hugann

Guðni ræddi sérstaklega það ferli að fara úr því að vera fræðimaður í að verða forseti lýðveldisins. Hann segir að það gæti gengið að sinna fræðistörfum í hjáverkum meðfram forsetaembættinu. „Það er samt frá degi til dags margt sem þarf að gera. En ég er samt viss um að það gætu gefist stundir til að bæði næra hugann og losna undan vinnunni með því að gera eitthvað annað og þá þætti mér gaman að grúska.

Ég þarf líka að passa mig á því, sjáið þið til, að fara ekki að tala alltaf eins og við ykkur núna eins og, ekki lengur forsetaframbjóðandi, en núna sem forseti sem senn verður settur í embætti, maður má ekki setja sig í stellingar. Þannig að ég, hvað á ég að segja? Hvað vill fólk heyra? Maður verður að passa sig að gera það ekki. Þannig að ég segi eins og satt er, vonandi næ ég að frelsa hugann með því að vera ekki sí og æ í vinnunni, þó að ég geri mér grein fyrir því að starfið sé annasamt og ég þarf að sinna fjölskyldunni.“

Guðni segist ætla að reyna brúa bilið á milli fræðimanns, sem hefur gagnrýna hugsun sem æðstu dyggð, og forsetans sem þarf að vera bjartsýnn og stoltur af sögunni. „Hvernig breytir maður sér úr fræðimanni í forseta? Þetta er dálítið ögrandi, ef ekki snúið [...] Ég held að gagnrýnin hugsun eigi að vera okkar veganesti. Það þarf að finna þennan rétta milliveg.“

Spenntur fyrir stjórnarmyndun

Guðni segir að kosningar í haust ráði mestu um hvernig fer með stjórnarskrá Íslands. Hann telur þó að forseti eigi að liðka fyrir að niðurstaða komist í það mál. „Ég sagði það síðustu vikur að áform um beint lýðræði hugnist mér, áform um þjóðareign á auðlindum, áform um náttúruvernd. Við ættum að geta náð einhverri sátt.“

Alþingiskosningar verða í haust og því líður ekki langur tími þar til að Guðni þarf að glíma við niðurstöðu kosninga. Hann segist ekki kvíða því. „Þetta er, má ég segja, spennandi fyrir mig sem hef fylgst svo með þessari sögu, að nú séu í vændum stjórnarmyndunarviðræður sem gætu tekið ögn lengri tíma og verið erfiðari en við eigum að venjast,“ sagði Guðni.

Viðtal Hallgríms Thorsteinssonar við Guðna var á öllu persónulegri nótum. Guðni þakkað eiginkonu sinn, Elizu Reid, sérstaklega fyrir allan stuðning hennar. Hann segist vera orðinn þreyttur á að nota frasa. „Þetta var kosning um stefnu og þá vandaðist málið aðeins hjá mér. Því að mín stefna var sú að forseti ætti ekki endilega að setja ákveðin mál á stefnuskrána, heldur ætti hann að vera þar fyrir utan og ofan. Nú er ég, og þið fyrirgefið mér, orðinn svo þreyttur á eign frösum; að standa utan fylkinga og flokka, að sameina frekar en að sundra. Í þessu felst samt sjónarmið um embættið,“ sagði Guðni.