Guðni Th. Jóhannesson, nýr forseti Íslands, gengur út frá því að gengið verði til þingkosninga í haust - mikið verði að ganga á til að þau heit sem stjórnarflokkarnir gáfu í vor verði ekki efnd. Nánast allt stjórnmálalífið sé að setja sig í stellingar fyrir haustkosningar. Þetta kemur fram í viðtali Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur við Guðna Th. Jóhannesson, nýjan forseta Íslands, sem sýnt verður á RÚV í kvöld.
Guðni setti engan fyrirvara á haustkosningar í fyrstu ræðu sinni sem forseti Íslands í dag. Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir nákvæmri dagsetningu en forystumenn stjórnarflokkanna hafa sagt að klára verði mikilvæg mál áður en hægt verði að kjósa.
Guðni segir að þessu hafi verið lýst yfir í vor og að mikið megi ganga á til að þau heit verði ekki efnd. „Klukkunni verður ekki snúið til baka.“
Miðað við skoðanakannanir er viðbúið að stjórnarmyndun gæti reynst erfið en Guðni segist vona að stjórnmálamönnum takist að mynda ríkisstjórn án aðkomu forsetans. Hann segir að það sé forsetans að velja þann sem þykir líklegastur til að mynda stjórn - það þurfi ekki að vera leiðtogi stærsta flokksins né sigurvegari kosninganna.
Fyrsta opinbera heimsókn Guðna sem forseta verður í Sólheima á miðvikudag. Ásýnd Bessastaða mun einnig breytast talsvert með tilkomu Guðna, Elízu og barnanna þeirra. „Það verða fótboltamörk og trampólín á grasinu fyrir framan Bessastaði,“ segir Guðni sem þakkaði einnig þau ráð sem forsetahjónin hefðu fengið, bæði frá Ólafi og Dorrit en einnig Vigdísi Finnbogadóttur.
Viðtalið í heild sinni verður sýnt á RÚV klukkan 19:35