Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hleypti í dag af stokkunum átaki þar sem fólk er hvatt til að kaupa íslenskar vörur. Opnunarhátíðin var haldin í Bónus þar sem forsetinn rakst fyrir tilviljun á móður sína.

Átakið nefnist Íslenskt - gjörið svo vel, en þar taka innlendir framleiðendur og verslanir höndum saman og bjóða upp á úrval af íslenskum vörum í verslunum víða um land. Opnunarhátíðin var í Bónus í Garðabæ, en það eru Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, Samtök verslunar og þjónustu og Bændasamtök Íslands sem standa að átakinu.

„Mig langaði til þess að styrkja þetta ágæta framtak, hvetja fólk til þess að huga að því sem er búið til hér heima. Íslenskt, gjörið svo vel,“ segir Guðni. „Auðvitað erum við í þannig samfélagi að við flytjum inn og við flytjum út og allt í góðu með það. En ég held að það sé sjálfsagt að við reynum að hugsa aðeins um það sem við gerum vel hér heima, það sem við framleiðum hér. Það er gott fyrir okkur sjálf, okkar efnahag og það er gott fyrir umhverfið líka - að fara ekki yfir lækinn að sækja vatnið ef svo má segja. Þannig að með þessum hætti legg ég mitt litla lóð á vogarskálarnar.“

Móðir þín var hérna fyrir tilviljun að versla, velur hún íslenskt?

„Já ég held að það hljóti að vera, ég fæ að minnsta kosti góðan plokkfisk hjá henni þegar ég kem í heimsókn,“ segir Guðni í léttum dúr.