Það geta ekki allir státað af guðmóður sem er geimhetja. Ripley Anna Ragnarsdóttir, sem er fjögurra ára, heitir í höfuðið á einum mesta kvenskörungi kvikmyndasögunnar. Hún hitti í gær Sigourney Weaver sem fór með hlutverk nöfnu hennar.
Margir staldra við þegar þeir heyra nafn Ripleyjar en á því eru ákveðnar skýringar. Foreldrar hennar eru sérstakir áhugamenn um Alien-kvikmyndirnar margfrægu, en þar fer leikkonan Sigourney Weaver með hlutverk Ellenar Ripley, sem Ripley er nefnd í höfuðið á. Óhætt er að segja að Ellen Ripley sé einn mesti kvenskörungur kvikmyndasögunnar - ef ekki sá mesti.
Faðir Ripleyjar, Ragnar Hansson kvikmyndagerðarmaður, frétti af því á fimmtudag að Sigourney Weaver væri stödd hér á landi.
„Vinur minn sendi mér skilaboð, sem er svona félagi minn í nördaskapnum og vissi hversu mikla meiningu þessi kona og þetta nafn og þessi kvenpersóna í sögunni væri okkur. Og ég flippaði bara. Sendi út boð á Facebook um að ég væri að leita að henni, að dóttir mín yrði að hitta hana,“ segir Ragnar.
Skömmu síðar var Ragnar á gangi eftir Laugaveginum þegar hann sér fyrir tilviljun leikkonuna frægu hinum megin við götuna.
„Ég guggna næstum á þessu en svo kyngi ég og hleyp yfir götuna og kalla á hana og segi að ég sé mikill aðdáandi og segi henni að ég vilji sýna henni svolítið. Og ég tek upp símann minn og sýni henni mynd af henni og ég útskýri nafnið, hvað mannanafnanefnd er og hvað við þurftum að gera til að fá þetta í gegn og að þetta væri eina Ripley Íslands og að þetta væri hetjan okkar. Og hún var bara imponeruð og fannst þetta áhugavert og dóttur hennar líka. Og síðan spurði ég hvort það væri einhver möguleiki á að dóttir okkar gæti hitt hana áður en hún færi. Og hún sagði „ekkert mál“.“
Þau hittust svo á hóteli leikkonunnar í gær.
Ég og móðir hennar og litla systir og stóri bróðir röltum niður í bæ. Og við alveg skítstressuð en hún pollróleg. En svo stendur hún bara þarna á slaginu fjögur, Sigourney Weaver, og tekur svona fallega á móti henni,“ segir Ragnar.
„Svo sest hún þarna og þá er hún búin að skrifa þetta fallega kort til hennar sem hún las upp fyrir hana. Og hún las ekki síðustu línuna og ég sá það ekki fyrr en við vorum komin heim þar sem ég skoðaði kortið betur að hún hafði undirritað það "Your alien Godmother" sem alveg bræddi okkur. Það gerði þetta augnablik alveg fullkomið vegna þess að það er ekkert amarlegt að Ripley sjálf kalli sig Alien guðmóður dóttur okkar.“